Hoppa yfir valmynd

Árangur Íslands

Ísland hefur náð markverðum árangri á heimsvísu þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum bæði hvað varðar rafvæðingu og húshitun. Fyrsta rafstöðin sem þjónaði almennum notendum var reist við Hamarskotslæk í Hafnarfirði árið 1904. Í kjölfarið komu ýmis sveitarfélög sér upp rafstöðvum og á árunum 1921-1933 voru Elliðaárnar virkjaðar. Á fjórða áratugnum bættust við virkjun Ljósafoss í Sogi og Laxár í Þingeyjarsýslu við Brúar. Á árunum eftir seinni heimsstyrjöld jókst raforkunotkun mikið, m.a. vegna aukinnar notkunar rafmagns til eldunar og fjölmargar heimarafstöðvar voru byggðar. Á sama tíma voru Íslendingar að læra að nýta jarðhitann en meirihluti landsmanna nýtir nú jarðhita til upphitunar á húsum sínum. Á seinni árum var einnig byrjað að nýta jarðhita til að framleiða raforku í jarðhitavirkjunum en fyrsta jarðvarmavirkjunin var reist í Bjarnarflagi og gangsett árið 1969. 

Í dag er nær öll raforkuframleiðsla Íslands frá endurnýjanlegum orkugjöfum en um 70% kemur frá vatnsafli og 30% frá jarðvarma. Þá á um 90% frumorkunotkunar uppruna sinn frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sem er einstakt á heimsvísu. Munar þar mest um jarðhitann sem notaður er til upphitunar húsa og telur um 70% af heildar frumorkunotkun, vatnsorkan telur um 20% en restin, um 10%, er innflutt olía sem notuð er til samgangna að mestu leiti.

Framsýni Íslendinga á nýtingu jarðvarma og virkjunar vatnsaflsins skilar því að raforkukerfi Íslands er með eitt lægsta kolefnissporið í heiminum og það sama má segja um húshitun. Framsýnin og frumkvöðlastarfsemi Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku hefur leitt af sér starfsemi og verkefni um allan heim. Sérþekkingin er einstök og ekki bundin við íslenskar aðstæður heldur nýtanleg á heimsvísu. Þá hafa sprottið upp fjöldi nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækja í kringum þá þekkingu sem er til staðar hérlendis með nýjar lausnir sem styðja við og stuðla að nýrri nálgun í nýjum heimi.  

Aðilar í baklandi Grænvangs eru leiðtogar á sviði loftslagsmála og mörg hver hafa verið stoð og stytta í þessari framþróun og árangri Íslands.

Bakland Grænvangs

Í dag er nær öll raforkuframleiðsla Íslands frá endurnýjanlegum orkugjöfum en um 70% kemur frá vatnsafli en 30% frá jarðvarma. Þá á um 90% frumorkunotkunar uppruna sinn frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem er einstakt á heimsvísu.