Hoppa yfir valmynd

Útflutningur grænna lausna

Eitt stærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála er útflutningur hugvits og grænna lausna.

Íslendingar koma að fjölmörgum verkefnum erlendis sem draga verulega úr losun koltvísýringsígilda á heimsvísu. Íslensk sérfræðiþekking er vel þekkt á sviði jarðvarmanýtingar, vatnsafls og gerð raforkumannvirkja. Sömuleiðis þykir merkilegt hve langt Íslendingar hafa náð á sviði kolefnisbindingar, nýtingar og förgunar en áhugi á tækni á því sviði fer hratt vaxandi vegna aukinnar þekkingar um loftslagsvána og markmið um kolefnishlutleysi. Auk þess bjóða íslensk fyrirtæki upp á umhverfisstjórnunarkerfi sem nýtast fyrirtækjum og stofnunum til þess að draga úr losun, án tillits til staðsetningar.

Íslenskar lausnir sem geta nýst í baráttunni gegn loftslagsvánni á heimsvísu eru m.a. nýting endurnýjanlegra orkugjafa til rafmagnsframleiðslu og húshitunar, sem og lausnir sem hafa verið þróaðar í sjávarútvegi og orkusæknum iðnaði til að draga úr losun.

Green by Iceland

Grænvangur og Íslandsstofa vinna saman að því að kynna framlag Íslands í loftslagsmálum.  Áratugalöng reynsla Íslendinga við nýtingu endurnýjanlegrar orku nýtist víða um heim til að liðsinna öðrum þjóðum við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og minnka þannig losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Grænvangur og Íslandsstofa reka í því skyni markaðsverkefnið Green by Iceland. Er því sérstaklega ætlað að styðja við útflutning grænna lausna frá Íslandi. Meginmarkmið Green by Iceland er að Ísland verði þekkt fyrir grænar lausnir og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Vefsíða Green by Iceland: GreenbyIceland.com

Green by Iceland er bæði á LinkedIn og með fréttabréf á ensku.

Fyrirtæki sem stunda útflutning grænna lausna geta fyllt út kortlagningarform til þess að bæta sér í sarpinn.

Undir merkjum Green by Iceland munu starfsmenn Grænvangs sækja ráðstefnur og viðburði sem tengjast orkumálum, árið 2021 stendur til að sækja World Geothermal Congress í Reykjavík, Wind Europe í Kaupmannahöfn, Indonesia International Geothermal, WCEF í Toronto, Hydro í Strasbourg, GIC í San Diego og COP26 í Glasgow.

Auk þess verða viðburðir um orkumál sem sendiráð Íslands halda merktir Green by Iceland en Grænvangur og Íslandsstofa eru í öflugu samstarfi við utanríkisþjónustu Íslands um kynningarmál.

Heimstorg

Íslandsstofa hefur umsjón með þjónustuborði atvinnulífsins sem rekur síðuna Heimstorg. Þar má finna upplýsingar um styrki og aðra fjármögnunarmöguleika sem standa íslenskum fyrirtækjum til boða. Má þar nefna Heimsmarkmiðasjóðinn og Uppbyggingarsjóð EES.

Norrænt samstarf

Grænvangur er í virku samtali við þá aðila á Norðurlöndum sem stunda svipaða starfsemi. Þetta er í takt við yfirlýsingu þess efnis að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Mikill áhugi er á samstarfi milli Norðurlanda á vettvangi grænna lausna enda eru loftslagsmálin samstarfsverkefni frekar en samkeppnisverkefni.