Hoppa yfir valmynd

Umbreyting í grænni framtíð

Ísland eins og aðrar þjóðir stendur frammi fyrir risavaxinni umbreytingu í tengslum við loftslagsmálin og kolefnishlutleysi.

Við þurfum öll að umbreyta verkefna- og vinnuháttum okkar með nýjum tæknilausnum og nýrri hugsun. Hver og einn þarf að leggja sitt að mörkum til að árangur náist en saman erum við öflugri. Þverfaglegt lausnamiðað samtal og samstarf er mikilvægt svo að samtakamáttur náist um farsælustu leiðirnar. Verkefnið er stórt en saman náum við árangri. 

Markmið Íslands

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti sama ár. Þá hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að draga úr losun sem nemur 55% árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Grænvangur leiðir saman atvinnulíf og stjórnvöld í aðgerðum sem miða að því að ná sameiginlegu markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040.  

Ríkisstjórn Íslands hefur skuldbundið sig til að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda um 55% árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Fyrra markmið stjórnvalda var samdráttur um 29% og var þjóðin á góðri leið með að ná því markmiði. Það er hins vegar ljós að betur má ef duga skal og markmið um 55% samdrátt á að nást. 

Til þess að vinna að markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hafa stjórnvöld sett fram aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Miðað við núverandi aðgerðaráætlun er áætlað að aðgerðirnar muni skila 24% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands á tímabilinu. Ráðgert er að uppfæra aðgerðaráætlun í lok árs 2023 til samræmis við ný markmið um 55% samdrátt í losun. Þá verður einnig vinna atvinnulífsins tekin inn í aðgerðaráætlun ríkistjórnarinnar en ljóst er að ef markmið um kolefnishlutleysi á að nást þurfa atvinnulíf og stjórnvöld að taka höndum saman. 

Nánar má lesa um aðgerðaráætlun í loftslagsmálum hér

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins

Íslenskt atvinnulíf tekur virkan þátt í markmiðinu um kolefnishlutleysi enda mun innleiðing sjálfbærni í rekstri efla samkeppnishæfni fyrirtækja til framtíðar. Einstakar atvinnugreinar hafa þegar tekið málin föstum tökum og gert áætlanir um kolefnishlutleysi. Eins hafa fjölmörg  fyrirtæki sett sér sambærileg markmið fyrir sína starfsemi. Íslensk fyrirtæki setja með þessu gott fordæmi og byggja traustan grundvöll til að takast á við loftslagsvána. Atvinnulífið leikur stórt hlutverk í loftslagsmálum þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun og umhverfisvænum lausnum. 

Íslenskt atvinnulíf hefur tekið höndum saman við gerð Loftslagsvegvísis atvinnulífsins. Tilgangur hans er að skilgreina stöðuna í hverri grein og ramma inn tillögur um aðgerðar og úrbætur sem snúa að bæði atvinnulífi og stjórnvöldum. Árið 2021 var fyrsti Loftslagsvegvísir atvinnulífsins unninn. Þar var lagt upp með að fá yfirsýn yfir þáverandi stöðu til að auðvelda atvinnugreinunum að setja sínar loftslagsaðgerðir í stærra samhengi. Auk þess var vegvísirinn tól fyrir atvinnulíf og stjórnvöld til að finna í sameiningu aðgerðir, hvata, ívilnanir og fleira sem styður við loftslagsvegferð Íslands. Vegvísarnir hafa nú verið uppfærðir með víðtækri þátttöku atvinnulífsins. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða endurskoðuð árlega en vinna við þá var unnin á forsendum íslensks atvinnulífs með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins.  

Nánar má lesa um loftslagsvegvísa atvinnulífsins hér

Samstarf lykillinn að kolefnishlutleysi 

Til að árangur megi nást er ljóst að allt samfélagið þarf að taka höndum saman. Atvinnulíf og stjórnvöld spila þar stórt hlutverk og því er mikilvægt að tryggja gott samtal og samstarf um áætlanir og aðgerðir. Grænvangur er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum og leggur sitt af mörkum með því að efla, hvetja og styðja við markmið um kolefnishlutleysi og hraða þannig umbreytingu að grænni framtíð.  

Leiðtogar atvinnulífsins í loftslagsmálum ásamt ráðherra og fulltrúum stjórnvalda ryðja brautina þegar kemur að orkuskiptum, tækniþróun og þeirri umbreytingu sem þarf að eiga sér stað svo Ísland geti náð kolefnishlutleysi. Grænvangur leggur sig fram við að auðvelda gott samstarf milli allra aðila með virku samtali og miðlun upplýsinga milli allra hlutaðeigandi. 

Lesa meira um starfsemi Grænvangs