Hoppa yfir valmynd

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins

Kolefnishlutlaust Ísland 2040

Íslensk stjórnvöld hafa sett það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040 og óháð jarðefna eldsneyti 2050. Grænvangur leiðir saman atvinnulíf og stjórnvöld í aðgerðum sem miða að því að ná sameiginlegu markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040.

Íslenskt atvinnulíf tekur virkan þátt í markmiðinu um kolefnishlutleysi enda mun innleiðing sjálfbærni í rekstri efla samkeppnishæfni fyrirtækja til framtíðar. Einstakar atvinnugreinar hafa þegar tekið málin föstum tökum og gert áætlanir um kolefnishlutleysi, eins hafa fjölmörg  fyrirtæki sett sér sambærileg markmið fyrir sína starfsemi. Íslensk fyrirtæki setja með þessu gott fordæmi og byggja traustan grundvöll til að takast á við loftslagsvána. Atvinnulífið leikur stórt hlutverk í loftslagsmálum þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun og umhverfisvænum lausnum.

Íslenskt atvinnulíf hefur tekið höndum saman við gerð Loftslagsvegvísi atvinnulífsins. Tilgangur hans er að skilgreina stöðuna í hverri grein og móta stefnu og tillögur til úrbóta. Í þessum vegvísi er m.a.:

  • Dregin upp mynd af núverandi stöðu
  • Fjallað um markmið, tækifæri og áskoranir
  • Lagðar fram tillögur til úrbóta, m.a. um hvernig stjórnvöld geti stutt við atvinnulífið til að ná hraðari árangri í loftslagsmálum en ella.

Vegvísirinn gefur yfirsýn yfir núverandi stöðu, sem auðveldar atvinnugreinunum að setja sínar loftslagsaðgerðir í stærra samhengi og hvetur atvinnulífið til frekari aðgerða. Vegvísirinn er ekki síður mikilvægur fyrir atvinnulíf og stjórnvöld til að finna í sameiningu aðgerðir, hvata, ívilnanir og fleira sem styðja við loftslagsaðgerðir í íslensku atvinnulífi.

Að gerð vegvísisins standa sex atvinnugreinafélög sem sameiginlega mynda Samtök atvinnulífsins, þ.e. Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu, sem og Bændasamtök Íslands.  Grænvangur hefur annast verkefnisstjórn og ritstjórn vegvísisins.

Ávinningur af gerð vegvísins getur verið mikill. Hann felst helst í því að öðlast yfirsýn yfir núverandi stöðu, skilgreina núllpunkt til að vinna eftir og auðvelda atvinnugreinum að setja sínar loftslagsaðgerðir í stærra samhengi. Með honum geta atvinnulíf og stjórnvöld fundið í sameiningu aðgerðir, hvata, ívilnanir og fleira sem styður við loftslagsaðgerðir í íslensku atvinnulífi.

Smelltu hér til að lesa Loftslagsvegvísi atvinnulífsins

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Ríkisstjórn Íslands hefur skuldbundið sig til að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda um 29% milli 2005 og 2030. Þetta samsvarar því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda úr 3.119 þtkí (þúsund tonna koldíoxíð ígilda) í 2.214 þtkí.

Áætlaður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbinding eftir flokkum, þúsund CO2-ígilda

Stjórnvöld hafa sett fram Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má finna aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030. Áætlað er að þær aðgerðir muni skila 35% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands á tímabilinu. Með því mun Ísland ná markmiðinu og ganga enn lengra í átt að sjálfbærri framtíð.

Frekari upplýsingar um aðgerðirnar og markmiðin má nálgast á CO2.is

Mismunandi flokkar losunar og hvað þú getur gert!

Losun Íslands, skuldbindingar og sameiginleg ábyrgð

Með Parísarsamkomulaginu settu ESB aðildarríkin, ásamt Íslandi og Noregi, sér sameiginleg markmið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við 1990. Þetta markmið var uppfært í desember 2020 og er nú stefnt að 55% samdrætti í losun. Ekki liggur fyrir hvernig ábyrgð verður skipt á milli ríkja eftir þessa uppfærslu en núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda tekur engu að síður mið af því að ná meiri samdrætti í losun en krafist er skv. núverandi skuldbindingum.

Viðskiptakerfi ESB (ETS) er kerfi þar sem þak er sett á heildarlosun frá öllum sem taka þátt í kerfinu. Hér undir falla t.d. orkufyrirtæki og fyrirtæki í orkusæknum iðnaði. Með tíð og tíma lækkar þakið en takist fyrirtækjum ekki að draga úr losun sem nemur þeirri lækkun, þurfa þau að kaupa sér losunarheimildir á frjálsum markaði. Kerfinu er ætlað að skila 43% samdrætti í losun innan Evrópu til 2030 miðað við 2005.

Losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt fellur ekki undir skuldbindingar Íslands eins og er og er þekking á þessum losunarflokki ennþá takmörkuð. Ísland getur þó talið fram ákveðna binding frá LULUCF á móti losun en að takmörkuðu leyti. Losun í þessum flokki kemur að mestu frá graslendi og votlendi en binding í skóglendi hefur næstum tífaldast á tímabilinu 1990-2019. Frekari upplýsingar um ETS og LULUCF má nálgast á vef Umhverfisstofnunar

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda um 29% milli 2005 og 2030 og hefur sett fram Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til þess að sýna hvernig því markmiði verður náð. Þar eru fjölmargir flokkar sem tengjast atvinnulífinu beint en breytingar á ferðavenjum og orkuskipti í samgöngum verða sérstaklega mikilvægir þættir til þess að markmið um kolefnishlutleysi náist.