Hoppa yfir valmynd

Loftstlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna

Tuttugasti og níundi aðildarríkjafundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Aserbaísjan dagana 11. - 22. nóvember 2024.

Loftslagsráðstefnan er árlegur viðburður sem haldinn er í tengslum við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 1992 en markmið samningsins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Á ráðstefnunni hittast samninganefndir aðildarríkja samningsins til þess að ræða stöðu og næstu skref í loftslagsmálum en  Parísarsamkomulagið var samþykkt á Loftslagsráðstefnunni í París árið 2015.

Ráðstefnan mun fara fram í Bakú, höfuðborg Aserbaísjan. Ráðstefnusvæðið skiptist annarsvegar í formlega samningasvæðið þar sem samninganefndirnar koma saman og þarf sérstakan aðgang að, og hinsvegar sýningasvæðið sem er opið öllum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið ásamt öllum helstu upplýsingum um ráðstefnuna verður hægt að finna á heimasíðu hennar. 

Grænvangur heldur utan um þátttöku atvinnulífsins á ráðstefnunni en þar gefst íslensku atvinnulífi tækifæri til þess að ræða loftslagsmál og lausnir á stórum vettvangi. Reglulega eru send út fréttapréf á póstlista COP til þess að miðla út nýjustu upplýsingum, áhugasamir geta skráð sig á póstlistann hér.

Þátttaka íslensk atvinnulífs

Þó að megintilgangur loftslagsráðstefnunnar sé fundur saminganefnda aðildarríkja loftslagssamningsins og viðræður í tengslum við hann þá eru einnig fulltrúar hagsmunasamtaka, borga og fyrirtækja sem sækja ráðstefnuna. Hliðarviðburðir fara gjarnan fram í tengslum við ráðstefnuna og má vænta að fjöldi slíkra viðburða fari fram í ár. Það má því segja að leiðandi aðilar á sviði loftslagsmála komi saman á þessum vettvangi til að miðla sinni þekkingu og lausnum með það að markmiði að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum. 

Mynd eftir Andreas Omvik. Copyright Nordisk Råd og Nordisk Ministerråd.

Fulltrúar úr íslensku atvinnulífi hafa undanfarin ár sótt ráðstefnuna og sumir jafnvel tekið þátt í málstofum eða öðrum dagskráliðum. Meðal atvinnulífsins hefur áhugi á þátttöku í ráðstefnunni farið vaxandi með því markmiði að ræða lausnir, efla tengsl og koma á auknu alþjóðlegu samstarfi í grænu umskiptunum. 

Grænvangur heldur utan um þátttöku atvinnulífsins á ráðstefnunni í góðu samstarfi við stjórnarráðið en þar gefst íslensku atvinnulífi tækifæri til þess að ræða loftslagsmál og lausnir á stórum vettvangi. Fyrirtæki þurfa að óska eftir því að fá úthlutuðum aðgangi frá stjórnvöldum (e. party overflow) til að komast inn á aðalsvæði ráðstefnunnar. Til að fylgjast með helstu fréttum um Loftslagsráðstefnuna hvetjum við áhugasama um að skrá sig á fréttabréfið okkar.