Loftstlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna
Tuttugasti og níundi aðildarríkjafundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Aserbaísjan dagana 11. - 22. nóvember 2024.
Loftslagsráðstefnan er árlegur viðburður sem haldinn er í tengslum við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 1992 en markmið samningsins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Á ráðstefnunni hittast samninganefndir aðildarríkja samningsins til þess að ræða stöðu og næstu skref í loftslagsmálum en Parísarsamkomulagið var samþykkt á Loftslagsráðstefnunni í París árið 2015.
Ráðstefnuna sækja aðildarríki loftslagssamningsins og samninganefndir en þátttaka annarra aðila sem styðja loftslagsvegferðina hefur farið vaxandi undanfarin ár. Má þar á meðal nefna alþjóðastofanir, frumkvöðla, fjárfesta, hagsmunasamtök og fyrirtæki, enda er hlýnun jarðar og áhrif á loftslagsbreytingar eitt stærsta viðfangsefni okkar samtíma.
Þingið er að þróast í þá átt að vera ekki eingöngu samningavettvangur aðildaríkjanna heldur innleiðingavettvang þar sem áherslan er á lausnamiðað samtal, þekkingarmiðlun og samstarf um leiðir að settu marki. Hlutur atvinnulífsins á þinginu hefur því stóraukist enda er þetta stærsta þing um loftslagaðgerðir í heiminum ár hvert. Þátttaka íslensks atvinnulífs á þinginu er mikilvægur liður sem styður við loftslagsaðgerðir og markmið Íslands en jafnframt er þetta lykilvettvangur til að vekja athygli á framlagi og lausnum Íslands gagnvart öðrum þjóðum og samstarfsaðilum um heim allan.
Framlag Íslands í þágu loftslagsmála er mikilvægt en þátttaka fyrirtækjanna á vettvangi þessum getur líka skilað verðmætum heim. Fyrirtækin fá þar sæti við lausnaborðið og gefst þannig tækifæri til að eiga samtal á fundum og málstofum, miðla sínum lausnum til annarra ríkja og mögulegra samstarfsaðila og deila eigin reynslu. Þá er ráðstefnan ekki síður suðupottur þekkingarmiðlunar sem nýtist í áframhaldandi vinnu fyrirtækja hérlendis.
Ráðstefnusvæðið skiptist annarsvegar í bláa svæðið, þ.e. formlega samningasvæðið þar sem samninganefndirnar koma saman og þarf sérstakan aðgang að, og hinsvegar græna svæðið sem er öllum opið. Grænvangur heldur utan um þátttöku viðskiptasendinefndar Íslands á COP29 í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Fulltrúar í viðskiptasendinefnd fá í gegnum þátttöku sína aðgang að bláa svæði ráðtefnunnar.
Á þessari síðu verður upplýsingum um COP29 í Bakú í Aserbaíjan miðlað þegar nánari upplýsingar um þingið liggja fyrir.
Fulltrúar úr íslensku atvinnulífi hafa undanfarin ár sótt ráðstefnuna og sumir jafnvel tekið þátt í málstofum eða öðrum dagskráliðum. Meðal atvinnulífsins hefur áhugi á þátttöku í ráðstefnunni farið vaxandi með því markmiði að ræða lausnir, efla tengsl og koma á auknu alþjóðlegu samstarfi í grænu umskiptunum.
Til að fylgjast með helstu fréttum um Loftslagsráðstefnuna hvetjum við áhugasama um að skrá sig á fréttabréfið okkar.