Tuttugasti og áttundi aðildarríkjafundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP28) fer fram í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 30. nóvember til 12. desember í ár.
Loftslagsráðstefnan er árlegur viðburður sem haldinn er í tengslum við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 1992 en markmið samningsins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Á ráðstefnunni hittast samninganefndir aðildarríkja samningsins til þess að ræða stöðu og næstu skref í loftslagsmálum en Parísarsamkomulagið var samþykkt á Loftslagsráðstefnunni í París árið 2015.
Ráðstefnan mun fara fram í Expo City í Dubai. Ráðstefnusvæðið skiptist annarsvegar í bláa svæðið, þ.e. formlega samningasvæðið þar sem samninganefndirnar koma saman og þarf sérstakan aðgang að, og hinsvegar græna svæðið sem er opið öllum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið ásamt öllum helstu upplýsingum um ráðstefnuna er nú þegar hægt að finna á heimasíðu hennar.
Grænvangur heldur utan um þátttöku atvinnulífsins á ráðstefnunni en þar gefst íslensku atvinnulífi tækifæri til þess að ræða loftslagsmál og lausnir á stórum vettvangi. Reglulega eru send út fréttapréf á póstlista COP til þess að miðla út nýjustu upplýsingum, áhugasamir geta skráð sig á póstlistann hér.
Þátttaka íslensk atvinnulífs
Þó að megintilgangur loftslagsráðstefnunnar sé fundur saminganefnda aðildarríkja loftslagssamningsins og viðræður í tengslum við hann þá eru einnig fulltrúar hagsmunasamtaka, borga og fyrirtækja sem sækja ráðstefnuna. Hliðarviðburðir fara gjarnan fram í tengslum við ráðstefnuna og má vænta að fjöldi slíkra viðburða fari fram í ár. Það má því segja að leiðandi aðilar á sviði loftslagsmála komi saman á þessum vettvangi til að miðla sinni þekkingu og lausnum með það að markmiði að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum.
Fulltrúar úr íslensku atvinnulífi hafa undanfarin ár sótt ráðstefnuna og sumir jafnvel tekið þátt í málstofum eða öðrum dagskráliðum. Meðal atvinnulífsins hefur áhugi á þátttöku í ráðstefnunni farið vaxandi með því markmiði að ræða lausnir, efla tengsl og koma á auknu alþjóðlegu samstarfi í grænu umskiptunum.
Grænvangur heldur utan um þátttöku atvinnulífsins á ráðstefnunni í góðu samstarfi við stjórnarráðið en vegna aukins áhuga hefur verið stillt upp umsóknarformi þar sem fyrirtæki geta óskað eftir fá úthlutuðum aðgangi frá stjórnvöldum (e. party overflow) til að komast inn á bláa svæði ráðstefnunnar. Opnað hefur verið fyrir umsóknir um þátttöku en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki geti sótt um þátttöku fyrir tvo fulltrúa en áætla má að í heildina fái 50 aðilar frá Íslandi aðgang að bláa svæði ráðstefnunnar. Nánari upplýsingar er að finna neðar í fréttabréfinu.
Upplýsingafundur
Þann 28. ágúst kl 10:30 er stefnt að því að halda opinn upplýsingafund um COP28 fyrir atvinnulífið. Fulltrúar frá stjórnvöldum munu þar kynna ráðstefnuna og tilgang hennar , fulltrúi úr atvinnulífinu fer yfir sína upplifun af þátttöku á COP28 auk þess sem Grænvangur fer yfir praktísk atriði. Þá mun gefast tækifæri fyrir spurningar og opnar umræður.
Umsókn um þátttöku
Líkt og kom fram að ofan er gert ráð fyrrir að úthluta 50 aðilum í heildina aðgangi að bláa svæðinu á COP í gegnum stjórnvöld (e. party overflow).
Stillt hefur verið upp umsóknarformi vegna aðgangs og er tekið á móti umsóknum til 1. september. Starfsfólk Grænvangs ásamt fulltrúum umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins munu yfirfara allar umsóknir og úthluta aðgangi. Stefnt er að því að ljúka úthlutun eigi seinna en 10. september. Allir aðilar sem eru utan formlegrar samninganefndar Íslands en hafa áhuga á að fá aðgang að COP skulu senda inn umsóknir, þar er t.d. átt við fyrirtæki, sveitarfélög og hagsmunasamtök. Ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar sæki um.
Aðilar sem sækja um að fá aðgang að COP þurfa að geta sýnt fram á skýrt erindi og tengingu við ráðstefnuna. Hver aðili getur sótt um aðgang fyrir tvo fulltrúa og óskað eftir að vera á biðlista sé áhugi fyrir því að fá aðgang fyrir fleiri. Úthlutun fer í gegnum stjórnvöld en Grænvangur tekur að sér umsýslu og undirbúning fyrir þá þátttakendur sem fara út auk þess sem gert er ráð fyrir tengslaviðburðum úti í Dubai. Því er gert ráð fyrir að allir sem fari út skrifi undir samning við Grænvang í tengslum við þátttöku.
Allar nánari upplýsingar og umsóknarblað má nálgast hér að neðan.
Praktísk atriði
Ljóst er kostnaður við hótelgistingu fer hratt hækkandi í Dubai á þeim dagsetningum sem COP28 fer fram.
Við hvetjum áhugasama um að fara út því eindregið til að fara að skoða og jafnvel bóka hótel með ókeypis afbókun sem fyrst til þess að tryggja sér gistirými. Hægt er að nálgast upplýsingar um þemadaga á heimasíðu ráðstefnunnar og mögulega ákvarða út frá því hvenær heppilegast sé fyrir viðeigandi fyrirtæki að vera á staðnum.
Flest hótel í nálægð við ráðstefnusvæðið eru uppbókuð en almenningssamgöngur í Dubai eru ágætar og lest (e. metro) gengur frá borginni inn á ráðstefnusvæðið (rauð lína). Við mælum eindregið með því að ferðast með metro frekar en leigubílum eða strætó þar sem umferð getur orðið þung í borginni.
Mikið er af ákjósanlegum hótelum í Dubai en Grænvangur leggur til að þátttakendur skoði Dubai Marina svæðið. Samninganefnd Íslands auk fulltrúa frá öðrum löndum verða á því svæði en þar er að finna mikið úrval af hótelum og veitingastöðum ásamt því að stutt er í metro stöðvar frá flestum hótelum og aðeins um 30 mín lestarferð á ráðstefnusvæðið.