Fyrirmyndin Ísland
Eitt stærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála er útflutningur hugvits og grænna lausna.
Fjöldi íslenskra lausna geta nýst í baráttunni gegn loftslagsáhrifum og losun gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu. Sérfræðiþekking Íslendinga m.a. á sviði jarðvarma, vatnsafls- og raforkumannvirkja er vel þekkt erlendis, ásamt nýjum hátæknilausnum s.s. á sviði kolefnisbindingar, nýtingar og förgunar. Þessi víðtæka þekking ásamt þeim tæknilausnum sem hafa verið þróaðar á Íslandi í gegnum árin eiga erindi í baráttunni við loftslagsvána á heimsvísu.
Íslendingar hafa verið í brautryðjendastarfi hér heima síðustu 100 ár með öflugri uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og seinna jarðvarmavirkjana. Ísland hefur náð eftirtektarverðum árangri á heimsvísu þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda frá rafmagnsframleiðslu og húshitun en þessi orka kemur að nær öllu leiti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. vatnsafli og jarðvarma. Þá hafa Íslendingar þróar nýjar lausnir m.a. í sjávarútvegi og orkusæknum iðnaði sem draga verulega úr losun, sem aðrar þjóðir horfa nú til.
Íslenskar lausnir geta nýst í baráttunni gegn loftslagsvánni á heimsvísu. Við erum leiðtogar umbreytinga og sjálfbærni og veitum innblástur sem styður við nýja hugsun í nýjum heimi.
Samstarf við aðrar þjóðir
Samstarf er lykillinn að árangri í loftslagsmálum, þar á ekki aðeins við samstarf milli atvinnulífs og stjórnvalda heldur einnig samstarf við aðrar þjóðir. Grænvangur er í virku samtali við aðila á Norðurlöndum sem stunda svipaða starfsemi. Þetta er í takt við yfirlýsingu þess efnis að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Mikill áhugi er á samstarfi milli Norðurlanda á vettvangi grænna lausna enda eru loftslagsmálin samstarfsverkefni frekar en samkeppnisverkefni. Margar af þeim lausnum sem unnið er að á Norðurlöndunum geta hin Norðurlöndin nýtt og markaðsett saman á heimsvísu.
Grænvangur er ekki aðeins í virku samtali við Norðurlandaþjóðirnar heldur um allan heim í gegnum utanríkisþjónustu Íslands. Unnið er að því að efla og styrkja samtalið við áhugasama aðila um loftslagsvegferð Íslands og þá tæknilausnir og sérfræðiþekkingu sem er að finna hér á landi.
Útflutningur grænna lausna
Í samstarfi við Íslandsstofu vinnu Grænvangur að því að kynna framlag Íslands í loftslagsmálum, endurnýjanlegri orku og grænar lausnir erlendis. Sú vinna fer fram undir markaðsverkefninu Green By Iceland en meginmarkið þess er að Ísland verði þekkt fyrir grænar lausnir og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Verkefninu er því sérstaklega ætlað að styðja við útflutning á grænum lausnum frá Íslandi og styðja þannig við nýja hugsun í nýjum heimi.