Hoppa yfir valmynd

Umsóknarferli vegna þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands á COP29

Grænvangur heldur utan um þátttöku viðskiptasendinefndar Íslands á COP29 í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Umsóknarfrestur er til 31. maí nk. Fulltrúar Grænvangs ásamt fulltrúum ráðuneytisins munu meta umsóknir og ganga frá úthlutun sæta í viðskiptasendinefnd. Umsóknum verður svarað eins hratt og hægt er, en eigi síður en lok júnímánaðar.

Gert er ráð fyrir að hámarki 50 fulltrúum fyrirtækja í viðskiptasendinefnd. Einungis fyrirtæki geta sótt um þátttöku, þ.e. einstaklingar geta ekki sótt um. Miðað er við að hvert fyrirtæki geti sótt um þátttöku fyrir allt að tvo fulltrúa. Sé vilji til að senda fleiri fulltrúa er mögulegt að óska eftir því með rökstuðningi. Farið verður sérstaklega yfir slíkar óskir eftir að umsóknir hafa verið afgreiddar.

Fyrirtæki þarf að geta sýnt fram á að eiga erindi á COP29 og vera með skýran tilgang fyrir þátttöku. Viðmið við úthlutun verða að fyrirtæki:

 • Séu að sækja sér þekkingar eða tengsla á þinginu sem nýst geta í loftslagsvegferðinni á Íslandi.
 • Séu að kynna lausnir eða þjónustu sem eru grænar.
 • Séu að leita eftir viðskiptatengslum eða öðrum tengslum við erlenda hagaðila.
 • Hafi náð viðeigandi áföngum í þróun og fjármögnum.
 • Hafi gott orðspor og séu verðugir fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi.
 • Séu starfandi á Íslandi (hafi íslenska kennitölu).

Þá er gert ráð fyrir að fulltrúar fyrirtækja í viðskiptasendinefnd hafi íslenskt vegabréf eða starfi hér á landi þar sem skráning á COP29 fer fram í gegnum aðgang íslenskra stjórnvalda að COP.

Í rafrænu umsókninni (sem er aðgengileg hér að neðan) er óskað eftir upplýsingum um fyrirtækið, rökstuðning fyrir þátttöku og markmiðum þess á COP29. Á síðari stigum þarf fyrirtækið að sjá fyrir frekari upplýsingum, svo sem kynningarefni, ítarlegri texta og tenglaupplýsingum fyrir fulltrúa fyrirtækisins í viðskiptasendinefnd.

Eftir að úthlutun líkur hefur fyrirtækið umþóttunartíma til 15. júlí nk. til að staðfesta þátttöku (taka boði um sæti í viðskiptasendinefnd). Ákveði fyrirtæki ekki að þiggja sæti í viðskiptasendinefnd verðum aðilum á biðlista úthlutað sæti.

Þátttaka í viðskiptasendinefnd felur í sér kostnað fyrir fyrirtæki. Kostnaðurinn er tvískiptur:

Staðfestingargjald
Eftir afgreiðslu umsókna og boð um sæti í viðskiptasendinefnd greiðist staðfestingargjald. Gjaldið er 150.000 kr. per fulltrúa fyrirtækis. Innifalið í því er kostnaður við umsýslu og undirbúning viðskiptasendinefndar. Staðfestingargjaldið er óafturkræft.

Þátttökugjald
Fyrir þingið greiðir hvert fyrirtæki hlutdeild í þeim breytilega kostnaði sem mun hljótast af fundaraðstöðu, erlendum almannatengslum og markaðssetningu og öðrum kostnaði tengdum dagskrá viðskiptasendinefndar á meðan að á þinginu stendur. Áætlað er að kostnaðurinn getir oðið um 350.000 til 700.000 kr. per fyrirtæki.

Séu fyrirtæki í baklandi Grænvangs ráðgerir Grænvangur að niðurgreiða hluta kostnaðar þeirra.

Innifalið í þátttöku viðskiptanefndar er:

 • Umsjón með skráningu inn á COP29 svæðið, sem veitir aðgang inn á bláa svæðið UNFCCC (e. party overflow).
 • Undirbúningsfundir, vinnustofur og tækifæri til tengslamyndunar fyrir þátttakendur í aðdraganda þingsins.
 • Almannatengsl á Íslandi í aðdraganda þingsins um þátttöku viðskiptasendinefndar.
 • Mótun skilaboða, markaðssetning og almannatengsl undir nafni Green by Iceland á erlendum vettvangi.
 • Stuðningur við kortlagningu samstarfstækifæra á þinginu og tengslamyndun við hagaðila sem sækja þingið.
 • Tæki til tengslamyndunar á meðan að á þinginu stendur m.a. sameiginlegur kvöldverður fyrir íslenska þátttakendur.
 • Aðgengi að fundaraðstöðu og stuðningur við samstarf stjórnvalda og atvinnulífs.
 • Almenn upplýsingamiðlun til eflingar viðskiptasendinefndar á meðan að á þinginu stendur.

Þátttaka fyrirtækja í viðskiptasendinefnd felur í sér skuldbindingu til virkrar þátttöku í sameiginlegum undirbúningi fyrir COP29. Undirbúningsferlið felur meðal annars í sér mótun skilaboða fyrir viðskiptasendinefnd Íslands á ráðstefnunni. Jafnframt er ferlinu ætlað að tryggja undirbúning fyrirtækjanna, meðal annars með upplýsingagjöf, aðstoð við tengslamyndun á ráðstefnunni sjálfri, undirbúning þátttöku fulltrúa fyrirtækja á málstofum á ráðstefnunni auk umsýslu.

Hægt er að nálgast rafræna umsókn hér.