Hoppa yfir valmynd

Viðskiptasendinefnd Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP29)

Það er óumdeilanlegt að aðildarríkjafundur og ráðstefna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna COP29 er stærsti árlegi loftslagsviðburður heims. Undanfarin ár hefur Ísland sent viðskiptasendinefnd á COP29, samhliða samninganefnd Íslands. Hlutverk viðskiptasendinefndar er að halda á lofti framlagi Íslands í loftslagsmálum, kynna Ísland og þær lausnir sem það hefur upp á að bjóða ásamt því að sækja þekkingu og reynslu sem nýtist í loftslagsvegferðinni hér heima. Grænvangur, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið heldur utan um þátttöku viðskiptasendinefndar á COP29.

Viðburðurinn hefur þróast í þá átt að vera ekki eingöngu samningavettvangur aðildarríkjanna, heldur innleiðingarvettvangur þar sem áherslan er á lausnamiðað samtal, þekkingarmiðlun og samstarf um leiðir að settu marki. Loftslagsráðstefnan er nú orðin fjölsóttari en samningavettvangur aðildarríkjanna. Ráðstefnuna sækja, auk stjórnvalda, meðal annars vísinda- og fræðasamfélagið, alþjóðastofnanir, fjárfestar, frumkvöðlar, atvinnugreinar, fyrirtæki og hagsmunasamtök.

Ísland er fyrirmynd og við höfum mikilvæga sögu að miðla sem getur veitt öðrum þjóðum innblástur í sinni vegferð. Við höfum náð lengra en flestar þjóðir á sviði grænnar umbreytingar og orkuskipta. Við búum yfir einsöku orkukerfi og okkur hefur auðnast að nýta auðlindir Íslands á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Viðskiptasendinefnd er mikilvægur liður í því að koma þeirri sögu á framfæri.

Starfsemi viðskiptasendinefndar Íslands er tvíþætt. Á innlendum vettvangi er unnið að því að undirbúa þau fyrirtæki sem eiga sæti í nefndinni ásamt því að vinna að kynningu á COP29 og mikilvægi þess á Íslandi. Hluti af undirbúninginum er að aðstoða fyrirtækin við að greina þau tækifæri sem felast í viðburðinum, hvort sem að þau eru að sækja sér þekkingu, kynna lausnir eða að sækjast eftir samstarfi við erlenda aðila. Á viðburðinum sjálfum felur starfsemin í sér stuðning við viðburði viðskiptasendinefndar, s.s. vegna málstofa eða kynningarfunda, almannatengsl og markaðssetning ásamt því að sjá viðskiptasendinefnd fyrir sameiginlegri fundaraðstöðu á þinginu í samstarfi við stjórnvöld.

Hægt er að lesa nánar um umsóknarferlið fyrir þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands hér.