Árangursrík þátttaka atvinnulífs á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP28
- Átján íslensk fyrirtæki, auk fulltrúa íslenskra stjórnvalda, tóku þátt á COP28 – loftslagsráðstefnu sem markaði tímamót.
- Ísland tekur þátt í kolefnisáskoruninni og íslenskar lausnir halda áfram að vekja athygli og skila góðum árangri.
- Þátttakan á COP28 skilar dýrmætri þekkingu og tengslum heim enda ein stærsta ráðstefna heims um loftslagsmál og grænar lausnir.
Öflugur hópur átján fyrirtækja úr íslensku atvinnulífi tók þátt á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP28) sem fram fór í Dubai dagana 30. nóvember til 12. desember. Grænvangur leiddi íslensku viðskiptasendinefndina en þátttaka atvinnulífsins var skipulögð í nánu samstarfi við forsætisráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Þingið markaði ákveðin tímamót en þar fór fram fyrsta stöðutaka aðildarríkja Loftslagssamningsins eftir að Parísarsamkomulagið var undirritað 2015. Ákall forseta þingsins og leiðtoga heimsins um aðgerðir var skýrt: Gera þarf meira og hraðar, eigi markmiðið um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður að nást.
„Við erum hæstánægð með samstarf atvinnulífs og stjórnvalda á þessum mikilvæga vettvangi og framlag íslensku sendinefndarinnar á COP28. Eftir margar afkastamiklar málstofur, markvissa fundi og líflegar umræður er ljóst að áhuginn á íslenskum lausnum fer sífellt vaxandi. Á ráðstefnunni felast líka mikil tækifæri í loftslagsaðgerðum atvinnugreina á Íslandi, meðal annars þegar kemur að því að auka alþjóðlegt samstarf og samhæfa aðgerðir, þvert á landamæri og ólík svið,“ segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs.
Þátttakan á þinginu styður við orkuskiptin á Íslandi og víðar
Á þinginu var lögð áhersla á að á heimsvísu þurfi að þrefalda endurnýjanlega orkuframleiðslu og bæta orkunýtni tvöfalt fram til ársins 2030. Þessi áhersla er í samræmi við það sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) og IRENA – alþjóðleg stofnun um endurnýjanlega orku (International Renewable Energy Agency) hafa kynnt á undanförnum mánuðum en 130 þjóðir hafa nú þegar skrifað undir stuðningsyfirlýsingu í þeim efnum og er Ísland eitt þeirra ríkja.
„Þriðju orkuskiptin á Íslandi fela það í sér að skipta þarf út öllu jarðefnaeldsneyti sem við notum fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Það er risavaxið verkefni og stór umbreyting sem þarfnast nýrrar nálgunar og krefst víðtæks samstarfs fyrirtækja og stjórnvalda um allan heim. Á þinginu í Dúbaí áttum við fjölda funda með fyrirtækjum sem standa framarlega í endurnýjanlegri orkuvinnslu og orkunýtingu. Þátttakan veitti okkur betri innsýn í hvernig hægt er að taka næstu raunhæfu skref í orkuskiptum á Íslandi, hvernig við munum knýja flutninga bæði á landi og á hafi,“ segir Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun.
Þá kom skýrt fram á þinginu að áhugi þjóða á beinni nýtingu jarðvarma sem mikilvægum lið í orkuskiptum fer stigvaxandi.
„Hitun og kæling samsvarar yfir helming orkuskiptaþarfar veraldar og bein nýting jarðhita, líkt og á Íslandi, er áhrifaríkur valkostur fyrir margar þjóðir. Við hjá Arctic Green spörum yfir 5 milljónir tonna af koltvísýringi í verkefnum okkar um allan heim á þessu ári og stefnum miklu hærra með fjárfestingum á næstu árum. Orkuskipti í hitun og kælingu eru stærsta áskorunin í baráttunni við loftslagsvána,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Arctic Green Energy.
Norræna módelið skilar áþreifanlegum árangri
Á COP28 gafst einstakt tækifæri til að treysta bönd og mynda ný tengsl en loftslagsvandinn er sameiginlegt verkefni okkar allra þar sem rödd Íslands skiptir sannarlega máli. Því stóðu Grænvangur og íslenska viðskiptasendinefndin fyrir þremur málstofum auk þess sem fulltrúar íslensks atvinnulífsins tóku þátt í fjölda annarra málstofa og samtala sem þar fóru fram. Þar má nefna málstofu um norræna samstarfsmódelið, sem haldin var í samstarfi við forsætisráðuneytið, umhverfisráðuneyti Finnlands, finnsku iðnaðarsamtökin EK og dönsku samtökin State of Green. Þar var fjallað um samstarf atvinnulífsins og hins opinbera á Norðurlöndunum og skilaboðin voru skýr: Samstarf hins opinbera og einkaaðila flýtir ekki bara fyrir loftslagsaðgerðum heldur skilar áþreifanlegum árangri sem gagnast samfélaginu í heild. Nauðsynlegt er að tryggja aðkomu allra við mótun loftslagsaðgerða og norræna samstarfsmódelið getur nýst öðrum þjóðum.
Íslenska sendinefndin beindi einnig sjónum að mikilvægi fjölbreytileika og jafnréttis sem lykilforsendu sjálfbærra og réttlátra umskipta en á því sviði getur Ísland verið öflug fyrirmynd. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á einstaklinga alls staðar, óháð kyni, bakgrunni eða öðrum breytum. Virkja verður alla tiltæka styrkleika og getu til að takast sameiginlega á við loftslagsáskorunina og orkuskipti veraldar.
„Að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir græna orku er stórt og mikið verkefni sem þjóðir heimsins verða að ná saman um. Í því, líkt og öðrum stórum verkefnum, er mikilvægt að við notum alla þá þekkingu og reynslu sem við búum yfir og þar leikur jafnrétti auðvitað lykilhlutverk. Saman eru við sterkari og þess vegna verðum við að takast á við loftslagsvána saman,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Jákvæð skref og áframhaldandi góður árangur íslenskra fyrirtækja
Á þinginu staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þátttöku Íslands í alþjóðlegu kolefnisáskoruninni (e. Carbon Management Challenge, CMC) í samstarfi við Bandaríkin. Ísland stendur framarlega á sviði kolefnisföngunar, förgunar og nýtingar enda hafa fjölmörg fyrirtæki hérlendis lagt allt kapp á að þróa nýjar lausnir á þessu sviði undanfarin ár. Þar má meðal annars nefna Carbfix og Carbon Recyling International, sem áttu fulltrúa á ráðstefnunni.
„Aðild Íslands að kolefnisáskoruninni er mjög jákvætt skref. Það er óumdeilt að til að ná loftslagsmarkmiðum er nauðsynlegt að fanga og binda kolefni í mjög miklu magni, ekki síst losun sem stafar frá iðnaðarferlum og ekki er hægt að útrýma með orkuskiptum eða öðrum leiðum. Aðferð Carbfix til öruggrar og varanlegrar kolefnisbindingar í bergi hefur vakið heimsathygli og við teljum að þetta alþjóðlega átaksverkefni sé góð leið til að stuðla að frekari innleiðingu okkar lausnar, sem og annarra ábyrgra lausna sem nauðsynlegt er að beita í baráttunni við loftslagsvandann,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix, sem var viðstödd undirritunina í Dúbai.
Þá tilkynnti íslenska fyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) um undirritun samnings við þýska eldsneytisframeiðandann P1 fuels, sem hyggst nota tækni CRI í framleiðslu á rafeldsneyti fyrir akstursíþróttir. Með tækninni verði hægt að framleiða vistvænt metanól úr koltvísýringi og vetni, en P1 mun nýta það til að framleiða bensín fyrir hefðbundnar bílvélar.
„Við erum ákaflega stolt af samstarfi okkar við P1 þar sem græna metanóltæknin sem CRI hefur þróað mun styðja við orkuskiptin með framleiðslu á kolefnishlutlausu eldsneyti. Það er ánægjulegt að geta látið verkin tala og nýtt okkar tækni til að ná markmiðum í loftslagsmálum og orkuskiptum,“ segir Björk Kristjánsdóttir, forstjóri Carbon Recycling International.
Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, er að vonum ánægð með virka þátttöku og sýnileika íslensku sendinefndarinnar á COP28: „Sá mikilvægi tímamótaáfangi sem samninganefndir aðildarríkja COP28 náðu á þinginu mun styðja enn frekar við okkar starf. Þátttaka íslensku viðskiptasendinefndarinnar á loftslagsþinginu var mikilvægur liður í að styrkja framlag Íslands til loftslagsmála en ekki síður í að auka þekkingu og mynda ný tengsl, sem munu styðja við áframhaldandi loftslagsaðgerðir til framtíðar hér heima. Við sýndum enn einu sinni að íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld geta haft áhrif og að með samstöðu og lausnamiðari nálgun er raunverulega hægt að hreyfa við hlutunum.“