Íslenskt atvinnulíf á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP28, fer fram í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 30. nóvember til 12. desember 2023.
Öflugur hópur fyrirtækja úr íslensku atvinnulífi sækir ráðstefnuna í ár, eða alls sextán fyrirtæki*. Grænvangur heldur utan um sendinefnd viðskiptalífsins á COP28 en þátttaka hennar er unnin í nánu samstarfi við Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið sem hefur umsjón með þátttöku Íslands á þinginu.
Íslensku fyrirtækin hafa unnið ötullega að aðgerðum í sínu umhverfi, með það að markmiði að draga úr losun á Íslandi en mörg þeirra vinna einnig að alþjóðlegum verkefnum sem skipt geta sköpum við úrlausn loftslagsvandans hjá öðrum þjóðum. Þar má nefna lausnir á sviði jarðhitanýtingar og húshitunar, kolefnisföngunar, förgunar og nýtingar sem og hringrásarlausna og annarra grænna kosta er miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hraða leiðinni að kolefnishlutlausum heimi.
Búist er við hátt í 70 þúsundum gestum á ráðstefnuna í ár. Hana sækja aðildarríki Loftslagsamningsins og samninganefndir en þátttaka annarra aðila sem styðja við loftslagsvegferðina hefur farið vaxandi undanfarin ár. Má þar nefna m.a. alþjóðastofnanir og ýmis samtök, umhverfissinna, ungliðahreyfingar, sérfræðinga og menntastofnanir, frumkvöðla, fjárfesta, atvinnugreinar og fyrirtæki enda er hlýnun jarðar og áhrif loftslagsbreytinga eitt stærsta viðfangsefni okkar samtíma.
Framlag Íslands í þágu loftslagsmála er mikilvægt en þátttaka fyrirtækjanna á vettvangi sem þessum getur líka skilað verðmætum heim. Á COP28 fá fyrirtækin sæti við lausnaborðið og gefst þannig tækifæri til að eiga í samtali á fundum og málstofum, miðla sínum lausnum til annarra ríkja og mögulegra samstarfsaðila eða fjárfesta og deila eigin reynslu. Þá er ráðstefnan ekki síður suðupottur þekkingarmiðlunar sem mun nýtast fyrirtækjum hérlendis í áframhaldandi vinnu.
Nýverið fjallaði Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, um þingið og þátttöku fyrirtækja í því í tveimur blaðagreinum: Rétt upp hönd og Við erum og getum verið öflug fyrirmynd annarra þjóða . Grænvangur vinnur nú að lokaundirbúningi ferðarinnar í nánu samstarfi við þátttakendur og samstarfsaðila en áhugasömum er bent á að allar frekari upplýsingar um þátttöku íslensku viðskiptasendinefndarinnar og fyrirtækin má sjá á erlendri lendingarsíðu Grænvangs og Íslandsstofu undir merkjum Green by Iceland.
*Fyrirtækin standa sjálf straum að þeim kostnaði sem hlýst við þátttöku þeirra á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.