Ísland á loftslagsráðstefnunni COP27
Grænvangur sótti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP27 í Sharm El-Sheikh ásamt 14 aðilum úr íslensku atvinnulífi. Í ár var íslensk nýsköpun á sviði loftslagsmála áberandi í hópnum en meðal þátttakenda voru Atmonia, Carbfix, International Carbon Registry, Landsvirkjun, Landvernd, Running Tide, Samtök iðnaðarins og Transition Labs.
Ísland og Síle leiddu alþjóðlegt átak til að vernda jökla og önnur frosin landsvæði jarðar með skilvirkum loftslagsaðgerðum. Ungir umhverfissinnar kölluðu eftir því að flýta aðgerðum, sérstaklega að hætta notkun jarðefnaeldsneytis og að ráðamenn myndu taka ákvarðanir byggðar á vísindarannsóknum.
Loftslagsráðstefnan COP er 27. aðildarríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum mætast þjóðarleiðtogar þeirra 198 þjóða sem skrifað hafa undir samninginn og setja sér markmið um hvernig standa skal vörð um framtíð jarðarinnar. Auk þeirra taka þátt í samtalinu embættismenn, sérfræðingar, loftslagshópar og aðgerðasinnar á sviði loftslagsmála.