Grænvangur stefnir á vettvangs- og fræðsluferð til Noregs til að fræðast um hagnýtingu vinds dagana 25-28. apríl næstkomandi. Ferðin er skipulögð af sendiráði Íslands í Noregi í samstarfi við Grænvang og fjölda norskra samstarfsaðila.
Markmið ferðarinnar er að veita innsýn í vindorkumál í Noregi og varpa ljósi á ólík viðfangsefni allt frá stefnumótun og löggjöf til innleiðingar og reksturs frá sjónarhorni ólíkra hagaðila. Fjallað verður um samspili atvinnugreina, áskoranir og tækifæri sem og mikilvægi samstarfs hagaðila við hagnýtingu vindorku. Hvað getum við Íslendingar lært af norska módelinu sem gagnast vinnunni fram á veg hér heima?
Lagt er upp með að fljúga til Osló þann 25. apríl og heim frá Stavanger í gegnum Kaupmannahöfn þann 28. apríl. Gist verður í eina nótt í Osló en tvær nætur í Stavanger og tíminn vel nýttur í kynningar og umræður með lykilaðilum í norsku vindorku umhverfi ásamt því að vindlundar verða heimsóttir.
Skráning stendur nú yfir og hvetjum við öll sem hafa áhuga á að kynna sér málið frekar til að hafa samband sem fyrst því þátttökufjöldi er takmarkaður. Kostnaður er áætlaður á bilinu 180 til 200þús. krónur og greiðist af þátttakendum sjálfum en þeir sem vilja nýta sér hópafargjald Icelandair verða að skrá sig og greiða flug fyrir 16. mars næstkomandi.
Fyrir frekari upplýsingar um ferðina, nánari dagskrá og kostnað er áhugasömum bent á að setja sig í samband við Grænvang.