Tuttugasta og níunda aðildarríkjafundi og ráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP29) sem fram fór í Bakú, Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember síðastliðinn en nýlokið. Þar var öflugur hópur fyrirtækja sem skipuðu viðskiptasendinefnd Íslands. Fyrirtækin sem um ræðir eru Carbfix, Climeworks, Efla, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar, Orkuveitan, Verkís og Bjarni Herrera.
Fyrirtækin í viðskiptasendinefndinni voru virk á COP29 og komu fulltrúar viðskiptasendinefndar fram í 14 viðburðum, ýmist á málstofum eða í hringborðum. Þrír viðburðir voru haldnir á vegum Grænvangs, þarf af einn í skála Danmerkur og einn norræna skálnum en Ísland hefur ekki verið með eigin skála á COP hingað til. Öflugt samstarf við Norðurlöndin skiptir okkur því máli og sem liður í undirbúningi viðskiptasendinefndar vann Grænvangur í nánu samstarfi við systursamtök sín á Norðurlöndum.
Hlutverk viðskiptasendinefndarinnar var að halda á lofti framlagi Íslands í loftslagsmálum, kynna Ísland og þær lausnir sem landið hefur upp á að bjóða ásamt því að sækja þekkingu og reynslu sem nýtist í loftslagsvegferðinni hér heima. Sendinefndin var leidd af Grænvangi undir merkjum „Green by Iceland“ í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið en þess má geta að allur kostnaður við þátttökuna var greiddur af fyrirtækjunum sjálfum.
Skilaboð sendinefndarinnar á COP29 var að Ísland sé fyrirmynd fyrir árangursríkri uppbyggingu endurnýjanlegs orkukerfis og grænna lausna. Markmið hennar var að efla alþjóðlegt samstarf og styðja þannig aðrar þjóðir í að ná sínum loftslagsmarkmiðum.
COP er stærsti árlegi loftslagsviðburður heims. Undanfarin ár hefur Ísland sent viðskiptasendinefnd á COP, samhliða samninganefnd Íslands. Viðburðurinn hefur þróast í þá átt að vera ekki eingöngu samningavettvangur aðildarríkjanna, heldur innleiðingarvettvangur þar sem áherslan er á lausnamiðað samtal, þekkingarmiðlun og samstarf um leiðir að settu marki. Íslenskum fyrirtækjum gefst því tækifæri til að kynna sig, sækja sér þekkingu og finna samstarfsaðila.
„Við vorum með öfluga og fjölbreytta viðskiptasendinefnd í ár. Þetta voru reynslumiklir fulltrúar fyrirtækja í endurnýjanlegri orkuvinnslu, verkfræðifyrirtækja með umfangsmikla þekkingu í þróun orku og grænna lausna en líka framsækinna nýsköpunarfyrirtækja í föngun, förgun og nýtingu kolefnis. Við erum sérstaklega ánægð með frammistöðu þeirra og virkri þátttöku, enda hafa fulltrúar viðskiptasendinefndar aldrei áður komið fram í jafn mörgum viðburðum á COP.“ segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs..