Af góðum hug koma góð verk
Árið 2021 var viðburðarríkt á sviði loftslagsmála. Víðast hvar í samfélaginu mátti greina aukna áherslu á málaflokkinn. Íslensk stjórnvöld lögfestu í vor markmið um kolefnishlutleysi og þar með var ákveðinn taktur sleginn fyrir íslenskt samfélag. Nýverið var sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 og í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að fullum orkuskiptum verði náð tíu árum síðar og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.
Íslenskt atvinnulíf lét ekki sitt eftir liggja á þessu sviði. Fyrr á árinu leit fyrsta útgáfa Loftslagsvegvísis atvinnulífsins dagsins ljós. Þar eru mörkuð drög þeirrar metnaðarfullu vegferðar sem íslenskt atvinnulíf á fyrir höndum til ná markmiðum sínum um loftslagsvænan rekstur. Loftslagsvegvísirinn greinir núverandi stöðu íslenskra atvinnugreina gagnvart loftslagsmálum, helstu áskoranir sem liggja fyrir og tækifæri sem búa í framtíðinni. Þar má einnig finna úrbótatillögur fyrir hverja atvinnugrein. Ætlunin er að gefa Loftslagsvegvísinn út annað hvert ár og má búast við enn frekari markmiðasetningu og stefnumótun í næstu útgáfu. Atvinnulífið tekur með þessu virkan þátt í að móta sjálfbæra framtíð þvert á atvinnugreinar.
Að gerð Loftslagsvegvísisins standa Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu, sem og Bændasamtök Íslands, en Grænvangur sér um verkefnisstjórn. Það er ljóst að atvinnulíf og stjórnvöld eru á réttri leið og ekki skortir viljann til góðra verka en þau þurfa sannarlega að ganga í takt til að vel megi takast til.
COP26
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, fór nýverið fram í Glasgow. Þar voru ríki heims hvött til að efla verulega aðgerðir og setja sér metnaðarfull markmið í baráttunni við loftslagsbreytingar. Fram kom að markmiðið um að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C væri enn raunhæft en krefðist samstöðu og sameiginlegs átaks þvert á landamæri. Þá var áhugavert að sjá aukna viðveru og þátttöku fyrirtækja á loftslagsráðstefnunni sem og mikla umfjöllun um grænar fjárfestingar og áherslu á að beina fjármagni heimsins í átt að grænum verkefnum og kolefnishlutleysi.
Á Íslandi má vel merkja þessar áherslur og eru fyrirtæki, fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir og aðrir í íslensku atvinnulífi farnir að láta til sín taka hvað þetta varðar sem er gríðarlega mikilvægt fyrir frekari framþróun og árangur á þessu sviði. Það má gera ráð fyrir enn frekari áherslu á loftslagsmál og sjálfbærni á öllum sviðum næstu ár og líkur til að skýr stefna og aðgerðir á þessu sviði verði enn mikilvægari hluti af starfsemi fyrirtækja til framtíðar.
LOFTSLAGSLEIÐTOGAR
Atvinnulífið leikur lykilhlutverk í loftslagsvegferðinni enda verða lausnirnar að miklu leyti til í atvinnulífinu. Mannauðurinn í atvinnulífinu keyrir áfram nýsköpun og þróun á þessari vegferð. Hver og einn einstaklingur skiptir máli því við höfum öll áhrif og getum verið hreyfiafl í rétta átt þegar kemur að loftslagsmálum og sjálfbærni í rekstri.
Einkunnarorð Festu eiga vel við í þessu samhengi – allt sem þú gerir hefur áhrif. Þar gegna stjórnendur lykilhlutverki. Margir stjórnendur gera sér grein fyrir því að umhverfisstefna og aðgerðir í loftslagsmálum geta skilað rekstrarlegum árangri og aukið eftirspurn eftir vöru þeirra eða þjónustu. Hlutverk og ábyrgð þeirra í loftslagsmálum skiptir raunverulegu máli í heimi þar sem loftslagsbreytingar ógna vistkerfum og samfélögum. Það mun því leggjast á herðar sterkra loftslagsleiðtoga úr atvinnulífinu að axla þessa ábyrgð og fara fram með góðu fordæmi.
Baráttan við loftslagsbreytingar er langhlaup, sem krefst bæði alþjóðlegrar samhæfingar og samstarfs, fremur en staðbundinna úrræða, aðgerða og forgangsröðunar. Til þess þarf stjórnendur sem eru tilbúnir til að stíga stór skref, breyta hugsunarhætti og sjá heildarmyndina í nýju ljósi. Áskoranirnar eru stórar, enda þarf að draga mikið úr losun.
Íslensk fyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref í loftlagsaðgerðum og mælingum geta sótt sér ráðgjöf og upplýsingar víða. Sérfræðingum og fyrirtækjum sem bjóða upp á ráðgjöf fyrir umhverfisvæna starfsemi fjölgar ört í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki hafa fjölmörg tækifæri til að taka virkan þátt, fara fram með góðu fordæmi, draga úr kostnaði til lengri tíma, og sækja á ný mið.
SAMSTAÐA OG JÁKVÆÐNI
Eins og áður segir mun atvinnulífið leika stórt hlutverk í lausn loftslagsvandans, ekki síst þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun, og hönnun á umhverfisvænum lausnum. En ábyrgðin er jafnframt mikil. Það krefst framsýni í bland við hugrekki að taka þau stóru skref sem framundan eru.
Það er til mikils að vinna. Við vitum hvað þarf að gera og við erum á réttri leið. Með samvinnu, samstöðu og samræmingu atvinnulífs, stjórnvalda og samfélagsins í heild eru okkur allir vegir færir.
Höfundur greinar er Birta Kristín Helgadóttir, forstöðumaður Grænvangs.
Greinin birtist í áramótablaði Frjálsrar verslunar.