Hlutverk Grænvangs er fyrst og fremst að hvetja til samstarfs milli atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun og styðja við sameiginleg loftslagsmarkmið. Grænvangur styður við loftslagsvegferð atvinnulífsins og hvetur fyrirtæki til þátttöku í umbótaverkefnum og loftslagsvegferð í átt að grænni framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag
Grænvangur sinnir einnig mikilvægi starfi undir formerkjum Green by Iceland við að kynna íslenska orkuþekkingu og grænar lausnir erlendis og hefur náð markverðum árangri undanfarið ár.
Að baki er viðburðarríkt og skemmtilegt ár en framundan eru enn bjartari tímar. Ársfundur Grænvangs, Samstíga á árangursríkri loftslagsvegferð – Þáttur atvinnulífsins í orkuskiptum Íslands, fer fram í byrjun apríl. Loftslagsmót verður haldið í þriðja sinn í maí næstkomandi í góðu samstarfi við Festu, Rannís og Umhverfis, orku og loftslagsráðuneytið. Undirbúningur næstu útgáfu Loftslagsvegvísis er hafinn en til stendur að gefa hann út í uppfærðri útgáfu árið 2023. Grænvangur mun leggja aukna áherslu á að styðja við loftslagsvegferð atvinnulífsins með fræðslu og málefnalegri umræðu.
Það er einnig margt á döfinni hjá Green by Iceland og má þar nefna viðskiptasendinefndir til London, Finnlands, Bandaríkjanna, þátttöku á ráðstefnum víða um heim, markvissa umfjöllun um íslenskar grænar lausnir í erlendum miðlum og fleira.
Við höldum bjartsýn áfram á loftslagsvegferðinni og hlökkum til að taka þátt í að móta græna framtíð.