Bill Gates, kófið og loftslagið
„Það sá þetta enginn fyrir, við gátum ekki undirbúið okkur“, segja margir um kófið og hljóma sannfærandi. Þetta er hins vegar ekki rétt. Fólk sá þetta nefnilega fyrir, ekki bara Nostradamus eða fólk sem spáir öllu mögulegu í von um að eitthvað af því rætist.
Í frægum TED fyrirlestri árið 2015 lýsti Bill Gates hættunni af bráðsmitandi veiruskratta og sýndi meira að segja af honum mynd, sem núna lítur kunnuglega út. Hann lagði meira að segja upp lista af aðgerðum sem ráðast þyrfti í til að vera tilbúin þegar veiran réðist á okkur.
Og þetta var ekki bara einhver gaur. Þetta var ríkasti maður í heimi; sem rak eina auðugustu góðgerðarstofnun heims; sem las tugi bóka á mánuði og mundi það sem hann las; og sem var í nánu sambandi við helstu hugsuði og forystumenn í heimi.
Samt var ekki var hlustað á hann þá. En hefði það verið gert, hefðum við verið mun betur búin undir veiruskömmina.
Ekki þýðir að fást um það núna. En hvað segir Bill Gates okkur um þessar mundir? Nýlega kom út bók hans: „How to Avoid a Climate Disaster: The Solutions We Have and the Breakthroughs We Need“. Nú eru það sem sagt loftslagsmálin sem hann varar okkur við.
Lausnirnar
Lausnirnar eru eðlilega margþættar. Ekki kemur þó á óvart að þessi höfundur leggi mikla áherslu á mikilvægi tæknilegrar nýsköpunar. Í afar áhugaverðu hlaðvarpi, sem hann rekur ásamt Rashida Jones, koma fram hugmyndir hans og skoðanir, sem nánar er lýst í bókinni. Þar nefnir hann m.a. nokkrar lausnir, sem hann hefur kynnst persónulega og sem stofnunin hans hefur fjárfest í. Endurnýjanleg orka er honum eðlilega ofarlega í huga. Einnig nefnir hann áhugaverða lausn til kolefnisbindingar, sem felst í samstarfi ClimeWorks og Carbfix hér uppi á Hellisheiði.
Ísland er í kjörstöðu til að vera í forystu þeirra sem stefna í þá átt sem Bill Gates fjallar um. Tækifæri í nýtingu endurnýjanlegrar orku og tæknileg nýsköpun með sífellt nýjum grænum lausnum eru okkar vopn.
Ættum við að hlusta núna?
Of seint er bregðast við fimm ára gömlum TED fyrirlestri um kófið. Ekki þýðir heldur að ergja sig yfir andvaraleysi þá.
Nú er hins vegar enn tími til viðbragða, þótt hann sé afar naumur.
Kannski heimsbyggðin ætti að hlusta að þessu sinni? Íslenskar grænar lausnir eru alla vega til í slaginn.
Höfundur er Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs.