Carbon Recycling International (CRI) hefur gengið í lið bakhjarla Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Grænvangur leiðir saman íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld til að vinna að sameiginlegu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland 2040, gefur út Loftslagsvegvísi atvinnulífsins og kynnir íslenskar grænar lausnir erlendis í samstarfi við Íslandsstofu undir merkjum Green by Iceland.
„Carbon Recycling International er íslenskt hátæknifyrirtæki sem hefur undanfarin 16 ár þróað nýja tækni og byggt verksmiðjur til að nýta græna orku til framleiðslu á vistvænu metanóli, en það er lykilhráefni í margvíslegum vörum og einnig nýtt í vaxandi mæli sem eldsneyti á skip og bíla. Við hlökkum til að vinna með Grænvangi og sjáum fyrir okkur öflugt samstarf á sviði orkuskipta þar sem tæknilausn CRI hefur stóru hlutverki að gegna” sagði Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI.
Bakland Grænvangs er víðtækt og telur nú yfir 40 aðila, þeirra á meðal ráðuneyti, orkufyrirtæki, verkfræðistofur og banka sem brenna fyrir því að skapa saman loftslagsvænni framtíð.
Birta Kristín Helgadóttir, forstöðumaður Grænvangs fagnar því að fá CRI í hópinn, „CRI hefur þróað lausn sem getur hraðað orkuskiptum á Íslandi og dregið gríðarlega úr losun á heimsvísu. Verkefni þeirra í Kína og Noregi sýna að nýsköpun á sviði loftslagslausna er einnig öflug útflutningsvara og afar ánægjulegt að fá fyrirtækið í hópinn”.