Eftirspurn eftir grænni orku fer sívaxandi í heiminum
Alþjóðlega orkumálastofnunin IEA (International Energy Agency) birti fyrir skemmstu Stöðuskýslu orkumála til ársins 2030. Í skýrslunni er fjallað um stöðu orkumála í heiminum, helstu drifkrafta grænna umskipta, breytingar í hagkerfum heims og áhrif þeirra, auk tækifæra til að hraða orkuskiptum. Í skýrslunni kemur fram að fjárfestingar í hreinni grænni orku í heiminum hafa vaxið um 40% frá árinu 2020. Skuldbindingar þjóða um að draga úr losun vega þar þungt en ekki síður aukin áhersla á orkuöryggi og sjálfstæði, m.a. í ljósi stöðu mála í Evrópu í tengslum við Úkraínustríðið og vegna stöðunnar fyrir botni Miðjarðahafs. Þá bendir Alþjóðlega orkumálastofnunin einnig á að teikn séu á lofti um að sumar þroskaðri grænar tæknilausnir séu að verða arðbærari og því betri valkostur.
Árið 2020 voru 1 af hverjum 25 seldum bílum í heiminum rafbílar en nú aðeins fimm árum síðar er hlutfallið 1 á móti hverjum fimm. Breytingar á löggjöf og efnahagslegir hvatar til að ýta við jákvæða þróun í þessum efnum skipta máli. Stofnunin bendir m.a. á að innleiðing Inflation Reduction Act í Bandaríkjunum geti haft þau áhrif að 50% nýskráninga bíla verði rafbifreiðar árið 2030 en hlutfall rafbifreiða í Bandaríkjunum í dag er um 8%. Til samanburðar má horfa til þeirra jákvæðu áhrifa sem skattaívilnanir stjórnvalda á rafbílum hafa haft hingað til hérlendis. Í dag er hlutfall rafbíla í umferð á Íslandi 9% og það sem af er ári hefur hlutfall seldra rafbifreiða verið um 40% samkvæmt upplýsingum af vef Orkustofnunar. Eins og þessi dæmi sýna verður mikilvægt að umgjörð og hvatar sem styðja við grænu umskiptin haldi áfram og hér heima hefur atvinnulífið lagt áherslu á að stjórnvöld tryggi fyrirsjáanleika í þeim efnum svo hægt sé að huga að langtímaáætlununum.
Þróunin er ör og því er ljóst að eftirspurn eftir grænni orku mun aukast umtalsvert á næstu árunum. Í ólíkum sviðsmyndum stöðuskýrslu Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar er því spáð að eftirspurn eftir grænni orku muni allt að þrefaldast til ársins 2030 í heiminum. Á Íslandi benda ólíkar orkuspár til þess að eftirspurn eftir rafmagni muni nær tvöfaldast fram til 2035 auk þess sem rafeldsneyti verði notað þar sem bein nýting rafmagns er ekki möguleg. Grænir orkukostir munu þurfa að knýja fólks- og flutningabíla, vinnuvélar, flugvélar, farþega- og fiskiskip til langs og því nauðsynlegt að tryggja að rafmagnsframleiðsla og innviðir mæti þessari þróun hér heima í takt við breyttar þarfir samfélagsins og þróunina í heiminum sem Grænvangur fjallaði nýverið um á Vísi.
Áhugasömum er bent á að kynna sér skýrslu Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar IEA um stöðu orkumála heiminum sem og nýlega útgefna skýrslu forseta Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna COP28, International Renewable Energy Agency and Global Renewables Alliance.
Í mars á síðasta ári birti Umhverfis-, orku- og lofslagslagsráðuneytið Stöðuskýrslu um orkumál sem gefur ágæta mynd af stöðu og áskorunum orkumála á Íslandi, en þar er m.a fjallað um ólíkar orkuspár. Nýverið birtu Landsnet og Landsvirkun sínar spár í tengslum við raforkuþróun til ársins 2035. Þá hafa Samorka, Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun og Efla opnað vefsíðuna orkuskipti.is auk þess sem Orkustofnun hefur birt orkuskiptalíkanið orkuskiptaspa.is.