Er jarðefnaeldsneytislaust Ísland prinsípmál eða pípudraumur?
Í október síðastliðnum kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, langtíma orkustefnu fyrir Ísland undir yfirskriftinni „Orkustefna til ársins 2050: Sjálfbær orkuframtíð.“
Eitt markmiða stefnunnar er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050 og nái því marki fyrst allra landa.
Er þetta raunhæft markmið eða góðlátlegt grín? Til þess að átta sig á því er nauðsynlegt að skoða hvað þegar hefur áunnist og hvað er eftir.
Rafmagn
Fyrsta íslenska vatnsaflsvirkjunin var reist í Hafnarfirði árið 1904. Nú þykir svo sjálfsagt að 100% okkar raforku komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum að við veitum þeirri merkilegu staðreynd varla næga athygli. Þessi árangur er þó öfundarefni annarra landa.
Húshitun
Sama gildir um orku til húshitunar. 100% hennar kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, eðlilega langmest frá jarðhita. Í flestum öðrum löndum er orka til húshitunar, sem og til kælingar þar sem það á við, uppspretta umtalsverðrar losunar.
Fólksbílar
Orkuskipti fólksbíla eru á fullri ferð. Rafbílar og tengiltvinnbílar voru helmingur nýskráðra fólksbíla á síðasta ári. Stöðugt koma á markað nýir, betri og öflugri bílar, sem draga lengra á hverri hleðslu. Að auki hefur kerfi hleðslustöðva um allt land verið byggt upp og er enn í vexti.
Flutningar á landi
Eitthvað lengra er í að flutningabílar verði almennt knúnir grænni orku. Þróunin er þó í fullum gangi. Þar mun vetni og rafeldsneyti unnið úr vetni leika stórt hlutverk. Áhugaverðar fréttir um verkefni stórra fyrirtækja á þessu sviði berast reglulega.
Skip
Losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum hefur dregist verulega saman á undanförnum árum. Orkunotkun hefur minnkað hratt, einkum vegna bættrar veiðistýringar og fjölbreyttrar nýsköpunar í skipum og veiðarfærum. Framundan eru orkuskipti, sem munu taka tíma þar sem hinar tæknilegu lausnir eru enn í þróun. Einnig hér munu vetni og rafeldsneyti vera í öndvegi.
Flug
Flugvélaframleiðendur eru komnir á fulla ferð við þróun flugvéla sem ganga fyrir grænni orku að hluta eða öllu leyti. Fyrst um sinn verða vélarnar smáar og á stuttum vegalengdum, en þær munu stækka og eflast eftir því sem þróun miðar áfram. Þannig má búast við því að slíkir flugkostir muni gagnast íslensku innanlandsflugi innan fárra ára.
Já, þetta er hægt
Á öllum þessum sviðum þarf endurnýjanlega orku, svo um raunveruleg orkuskipti verði að ræða. Ísland er því í kjörstöðu til að ná hér árangri. Aðgengi hérlendis að endurnýjanlegum orkulindum í formi fallvatna, jarðhita og vinds kemur í beinu framhaldi af ríflega aldarlangri sögu okkar í nýtingu endurnýjanlegrar orku.
Verkefnin eru því bara tvenns konar: Þau sem búið er að leysa og þau sem eftir er að leysa. Reynslan af fyrri árangri ætti að hvetja til áframhaldandi vinnu og efla trú okkar á að þetta sé mögulegt.
Oft er sagt að við ofmetum það sem hægt er að gera á einu ári, en vanmetum það sem mögulegt er á áratug.
Hversu langt komumst við þá á þrjátíu árum?
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 18.mars 2021