Ísland aðili að alþjóðlegu kolefnisáskoruninni
Í nýliðinni viku á COP28 aðilarríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna staðfesti, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, þátttöku Íslands í alþjóðlegu kolefnisáskoruninni (e. Carbon Management Challenge, CMC).
Ísland stendur framarlega á sviði kolefnisföngunar, förgunar og nýtingar enda hafa fjölmörg fyrirtæki hérlendis lagt allt kapp á að þróa nýjar lausnir undanfarin ár á þessu sviði og ber þar að nefna m.a Carbfix, Carbon Recyling International og Climeworks.
„Aðild Íslands að þessu átaki er mjög jákvætt skref. Það er óumdeilt að til að ná loftslagsmarkmiðum er nauðsynlegt að fanga og binda kolefni í mjög miklu magni, ekki síst losun sem stafar frá iðnaðarferlum og er því ekki hægt að útrýma með orkuskiptum eða öðrum leiðum. Aðferð Carbfix til öruggrar og varanlegrar kolefnisbindingar í bergi hefur vakið heimsathygli og við teljum að þetta alþjóðlega átaksverkefni sé góð leið til að stuðla að frekari innleiðingu okkar lausnar, sem og annarra ábyrgra lausna sem þarf að beita í baráttunni við loftslagsvandann.“ Segir Edda Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix sem var viðstödd undirritunina í Dubaí.
Á heimasíðu stjórnarráðsins má sjá meira um kolefnisáskorunina en þar segir:
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það hefur ekki farið fram hjá neinum að íslensk fyrirtæki eru í fararbroddi í heiminum þegar kemur að loftslagslausnum á borð við kolefnisföngun. Það kom því ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld skyldu bjóða Íslandi að vera með í þessu mikilvæga átaki – Ísland er alþjóðlegur orku- og loftslagsleiðtogi og við hyggjumst halda áfram á þeirri braut. Við höfum séð það hér á COP að áhuginn á íslenskum lausnum, sérþekkingu og hugviti hefur aldrei verið meiri.“
CMC kolefnisáskorunin er alþjóðlegt átaksverkefni sem miðar að því að hraða upptöku tækni sem byggir á föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis (CCS/CCUS). Markmið kolefnisáskorunarinnar, sem Bandaríkin leiða, er að ýta undir og skala upp með stórfelldum hætti föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis á heimsvísu. Með þessu á að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og vinna að því að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C.
Í dag nær sá samdráttur sem næst í losun með föngun, förgun og hagnýting kolefnis á heimsvísu einungis í kringum 0,05 Gt C02-íg (þ.e. um 50 milljón tonn, sem svarar rúmlega tífaldri losun Íslands). Kolefnisáskorunin miðar að því að auka þetta magn upp í 1 Gt, en talið er að föngun, förgun og hagnýting kolefnis í því magni gæti haft veruleg áhrif í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Guðlaugur Þór fundaði nýverið með Dr. Andrew Light, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna. Ráðherrarnir ræddu hvernig mætti dýpka samvinnu landanna á sviði orku- og loftslagsmála enn frekar. Þátttaka Íslands í kolefnisáskoruninni er liður í auknu samstarfi ríkjanna og á næstu mánuðum er stefnt að því að undirrita samkomulag um frekari samstarfsverkefni á sviði orku- og loftslagsmála.