Ísland leiðandi í grænum lausnum með Green by Iceland
Rafrænn kynningarfundur Green by Iceland markaðsverkefnisins heppnaðist vel og 85 manns fylgdust með streymi fundarins í rauntíma. Green by Iceland er undirvörumerki Inspired by Iceland, unnið í samstarfi Grænvangs og Íslandsstofu, og mun miðla sögum um endurnýjanlega orkunýtingu og metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands.
Í erindi sínu á fundinum sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tækifæri víðsvegar í heiminum til að hraða breytingum og gera hluti á nýjan hátt. „Grænvangur er vettvangurinn þar sem stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf eiga í samstarfi og sinna því mikilvægu kynningarstarfi á erlendri grundu og kynna sérþekkingu og þann árangur sem við höfum náð í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Við náum árangri með því að gera þetta saman. Ég óska Grænvangi innilega til hamingju með þetta verkefni og hlakka til að fylgjast áfram með því góða starfi sem hér er unnið.“
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs sagði „eitt stærsta framlag Íslands í loftslagsmálum hefur átt sér stað erlendis. Með aðstoð við að virkja og nýta jarðvarma og fallvötn víða um heim, hafa íslensk fyrirtæki átt sinn þátt í að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Uppsafnaður sparnaður af þessum verkefnum er umtalsvert meiri en samanlögð árleg losun íslensks efnahagslífs.“
Vefurinn Green by Iceland, www.greenbyiceland.com var kynntur en hann heldur utan um íslenskar grænar lausnir til útflutnings, upplýsingar um íslenska orkuþekkingu og nýsköpun auk hringrásarsagna úr íslensku atvinnulífi og umfjöllun um metnaðarfullt markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040.
Auk þess voru stuttar kynningar frá Orkuklasanum, Carbfix, Landsvirkjun og sendiráðum Íslands í Kína, Japan, Bretlandi og Bandaríkjunum.
Upptöku af streyminu má nálgast hér: