Íslendingar koma að fjölmörgum verkefnum erlendis sem draga verulega úr losun koltvísýringsígilda á heimsvísu. Íslensk sérfræðiþekking er vel þekkt á sviði jarðvarmanýtingar, vatnsafls og gerð raforkumannvirkja. Sömuleiðis þykir merkilegt hve langt Íslendingar hafa náð á sviði kolefnisbindingar, nýtingar og förgunar en áhugi á tækni á því sviði fer hratt vaxandi vegna aukinnar þekkingar um loftslagsvána og markmið um kolefnishlutleysi. Auk þess bjóða íslensk fyrirtæki upp á fjölmargar lausnir sem nýtast fyrirtækjum og stofnunum til þess að draga úr losun, án tillits til staðsetningar.
Íslenskar lausnir sem geta nýst í baráttunni gegn loftslagsvánni á heimsvísu eru m.a. nýting endurnýjanlegra orkugjafa til rafmagnsframleiðslu og húshitunar, sem og lausnir sem hafa verið þróaðar í sjávarútvegi og orkusæknum iðnaði til að draga úr losun.
Í nýjasta myndbandi Green by Iceland er sagt frá því hvernig íslendingar hafa nýtt endurnýjanlega orku í áratugi með sjálfbærum hætti, þróað í því samhengi sérfræðiþekkingu og ráðgjöf sem er eftirsótt um allan heim og sett sér markmið um kolefnishlutleysi o.fl.
Við hvetjum ykkur til að horfa á myndbandið og skoða nánari upplýsingar um íslenskar, grænar lausnir til útflutnings, á vef Green by Iceland.