Íslenskar lausnir í brennidepli í erlendum fjölmiðlum
Á hverju ári stendur Grænvangur, undir merkjum Green by Iceland, í samstarfi við Íslandsstofu fyrir tveimur blaðamannaferðum hingað til lands en allt almannatengslastarf er unnið i nánu samstarfi við erlendar almannatengslastofur. Á þessu ári hafa blaðamenn frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi sótt Íslands heim með það að markmiði að kynnast íslenskum lausnum og fyrirtækjum sem hafa verið framarlega á sviði m.a. hringrásar og endurnýtingar, jarðvarma, veitna og húshitunar, endurnýjanlegrar orku og nýsköpunar.
Blaðamannaferðirnar eru unnar í nánu samstarfi við fyrirtæki og frumkvöðla hér heima og er markmiðið að veita innsýn í stöðu Íslands á sviði sjálfbærni og grænna lausna og kynna íslenska þekkingu og lausnir sem gagnast geta öðrum þjóðum í loftslagsbaráttunni. Árangur starfsins hefur ekki látið á sér standa en á síðasta ári birtust hátt í 150 umfjallanir í erlendum miðlum, þar af 50 í efsta gæðaflokki og því ljóst að áhugi á Íslandi á þessu sviði er mikill. Í þessum samhengi má benda á að nóvemberforsíða National Geographic skartar Carbfix og óskum við þeim innilega til hamingju með góðan árangur.
Fyrir áhugasama bendum við á nýlegar umfjallanir:
Energy Monitor, Theodore Reed-Martin: Capturing, storing, and recycling carbon: Iceland's CCUS initiatives.
Voltz, David Roberts: What's the deal with Iceland?
National Geograpic, Sam Howe Verhovek: Another weapon to fight climate change? Put carbon back where we found it.