Jarðvarmi aðalmálið í haust
Mikil áhersla hefur verið á að kynna reynslu Íslendinga á sviði jarðvarma í haust enda setur orkukrísan í Evrópu hana í nýtt samhengi. Á svona tímum leitast þjóðir heims við að verða óháðar öðrum í orkumálum. Green by Iceland sótti European Geothermal Congress (EGC) og ARGeo í Djibouti ásamt helstu sérfræðingum á sviði jarðvarma. Mikill áhugi var á þekkingu Íslendinga, sérstaklega á sviði húshitunar. Með í för voru þátttakendur frá ÍSOR, Mannvit, Verkís, Jarðborunum, Vatnaskilum og BBA/FJELDCO.
Sendiherra Íslands í Berlín bauð til veislu
María Erla Marelsdóttir sendiherra í Þýskalandi bauð í tilefni af sýningunni European Geothermal Congress til veislu í sendibústað sínum í Berlín í október í samstarfi við Green by Iceland. Móttökuna sóttu rúmlega 70 gestir bæði úr íslensku atvinnulífi sem og gestum hvaðanæva af frá Evrópu og víðar sem sóttu sýninguna. Í ræðu sinni talaði sendiherra um mikilvægi samstarfs og þekkingarmiðlunar. Því enda þótt allar þjóðir standi frammi fyrir mikilli áskorun hvað loftslagmálin varðar þá er alveg ljóst að saman náum við hraðar markmiðum okkar.