Loftslagsmálin eru okkur ofarlega í huga þessi misserin. Grænar lausnir, umhverfisvænar vörur, sjálfbær hugsun, kolefnisbinding, orkuskipti, samdráttur í losun, aðlögun að loftslagsbreytingum og fleira sem við þurfum að tileinka okkur til að leggja okkar af mörkum í stóra samhenginu. Þetta kann að hljóma yfirþyrmandi og óyfirstíganlegt, flókið og fjarstæðukennt. Því fer þó fjarri og eigum við miklu heldur að líta á þau spennandi tækifæri sem felast í því að tækla loftslagsvandann í sameiningu.
Íslenskt samfélag hefur sett sér það markmið að verða kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040 og jarðefnaeldsneytislaust fyrir árið 2050. Við horfum fram á breytta tíma og nýjan veruleika þar sem loftslagsáhætta verður enn meiri fyrir samfélag og atvinnulíf. Aukinn fókus á loftslagsmál hefur gert það að verkum að upp spretta nýjar lausnir og áherslur í rekstri hafa breyst. Ávinningurinn sem felst í því að taka loftslagsmálin alvarlega er mun meira áberandi og er hann bæði samfélagslegur og umhverfislegur en ekki síður efnahagslegur. Fyrirtæki í íslensku atvinnulífi verða að vera hluti af lausninni og taka þátt af ábyrgð og festu, setja sér markmið og stefnur og sýna gott fordæmi.
En hvernig getum við tryggt þátttöku atvinnulífsins? Lausnir, aðgerðir, ráðgjöf og annað verða að vera aðgengileg fyrir þá sem vilja taka þessi mál föstum tökum. Það ætti að vera einfalt og þægilegt fyrir fyrirtæki að kynna sér hvernig sé best að grænka reksturinn og setja umhverfis- og loftslagsmálin í forgrunn. Grænvangur, RANNÍS og EEN standa nú fyrir Loftslagsmóti, í samstarfi við Festu og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Loftslagsmót 2021 fer fram með rafrænum hætti þann 21. apríl kl. 9-12. Nauðsynlegt er að skrá sig til að taka þátt.
„Loftslagsmál eru okkar allra og atvinnulífið leikur stórt hlutverk þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun, hönnun og umhverfisvænum lausnum. Loftslagsmót gefur tækifæri til að tengja saman lausnir og þarfir á þessu sviði og styður við gróskumikið starf í þágu loftslagsmála. Með samvinnu náum við okkar markmiðum og ég hvet fyrirtæki og einstaklinga til að nýta tækifærið, styrkja tengslin og taka þátt í því að skapa okkur og komandi kynslóðum betri framtíð“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um loftslagsmótið.
Loftlagsmótið var fyrst haldið í mars 2020 og heppnaðist einstaklega vel. Þar voru um 230 fundir haldnir með yfir 90 stofnunum og fyrirtækjum um nýsköpun og lausnir í rekstri varðandi umhverfis- og loftslagsmál. Um er að ræða vettvang þar sem fyrirtæki og aðilar í nýsköpun á sviði loftslagsmála og grænna lausna fá tækifæri til að hittast á stuttum örfundum, kynna sínar lausnir og fræðast um það sem er í boði.
Markmið Loftslagsmóts er að stuðla að aðgerðum í rekstri fyrirtækja í þágu loftslagsmála, hvetja fyrirtæki til að kynna sér þær grænu lausnir sem eru í boði og bjóða fyrirtækjum upp á vettvang til að kynna sínar lausnir og þjónustu.
Hér er átt við hverskyns lausnir sem styðja við loftslagsvænni rekstur. Dæmi um umfjöllunarefni að lausnum og/eða því sem óskað er eftir getur verið ráðgjöf í tengslum við hvernig fyrirtæki geta tekið fyrstu skrefin í átt að umhverfisvænni rekstri, betri aðferðir í flokkun, reiknivélar kolefnisspors, stefnumótun í umhverfis- og loftslagsmálum, lágmörkun úrgangs, rafrænt bókhald, kolefnisbókhald, umhverfisstjórnun, vottaðar byggingar, nýsköpun, sjálfbærar fjárfestingar og svo margt fleira!
Allir sem skrá sig hafa þann kost að bóka fundi með öðrum þátttakendum á Loftslagsmótinu. Loftslagsmót 2021 leiðir saman fyrirtæki, stofnanir, frumkvöðla og aðra úr atvinnulífinu á stuttum fundum til að ræða málin og kynnast loftslagsvænum lausnum. Eins fá fyrirtæki kost á því að eiga fundi við valda aðila úr stuðningsumhverfinu sem veita ráðgjöf varðandi styrkjamöguleika, nýsköpunarþróun og vaxtamöguleika á alþjóðavettvangi.
Allt sem þú gerir skiptir máli. Markmið okkar á sviði loftslagsmála eru sameiginleg og því skiptir gríðarlega miklu máli að allir leggi sitt af mörkum, stórt eða smátt. Það er hægt að bjarga heiminum með grænni nýsköpun, breyttu hugarfari og samhentu átaki.
Loftslagsmótið er einn vettvangur til að taka þátt í að skapa betri heim og því hvetjum við öll til að skrá sig og vera með!
Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Loftslagsmótsins, HÉR.
Höfundur greinar er Birta Kristín Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Grænvangi.
Greinin birtist í vefútgáfu Fréttablaðsins, þann 17.apríl 2021.