Sköpum betri framtíð í loftslagsmálum
Loftlagsmótið fer fram í annað sinn þann 21. apríl næstkomandi og verður að fullu rafrænt í ári. Mótið er vettvangur til að leiða saman fyrirtæki, stofnanir, frumkvöðla og aðra úr atvinnulífinu á stuttum fundum til að ræða málin og kynnast loftslagsvænum lausnum við hæfi. Nauðsynlegt er að skrá sig til að taka þátt og hafa allir skráðir þann kost að bóka fundi með öðrum þátttakendum mótsins.
Loftslagsmótið var fyrst haldið í mars 2020 og heppnaðist einstaklega vel. Þar voru um 230 fundir haldnir með yfir 90 stofnunum og fyrirtækjum. Markmið mótsins er að stuðla að jákvæðum aðgerðum í rekstri fyrirtækja í þágu loftslagsmála. Annarsvegar með því að hvetja fyrirtæki til að kynna sér þær grænu lausnir sem mótið hefur upp á að bjóða og hinsvegar veita fyrirtækjum vettvang til að kynna sínar lausnir og þjónustu.
„Loftslagsmál eru okkar allra og atvinnulífið leikur stórt hlutverk þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun, hönnun og umhverfisvænum lausnum. Loftslagsmót gefur tækifæri til að tengja saman lausnir og þarfir á þessu sviði og styður við gróskumikið starf í þágu loftslagsmála. Með samvinnu náum við markmiðum og ég hvet fyrirtæki og einstaklinga til að nýta tækifærið, styrkja tengslin og taka þátt í því að skapa okkur og komandi kynslóðum betri framtíð.“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Umfjöllunarefni geta verið allt frá bættum aðferðum við flokkun, yfir í reiknivélar kolefnisspors, stefnumótun í umhverfis- og loftslagsmálum, lágmörkun úrgangs, rafrænt bókhald og kolefnisbókhald svo að fá dæmi séu nefnd. Eins gefst þátttakendum kostur á því að eiga fundi við valda aðila úr stuðningsumhverfinu sem veita ráðgjöf varðandi styrkjamöguleika, nýsköpunarþróun og vaxtarmöguleika á alþjóðavettvangi.
Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér loftslagsmótið nánar á síðu viðburðarins og skrá sig þar til leiks.
Grænvangur, RANNÍS og EEN sjá um viðburðinn í samstarfi við Festu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Frekari upplýsingar veita Birta Kristín Helgadóttir hjá Grænvangi (birta@green.is) og Katrín Jónsdóttir hjá RANNÍS (katrin.jonsdottir@rannis.is).