Loftslagsvegvísir sjávarútvegsins
Eggert Benedikt Guðmundsson er forstöðumaður Grænvangs, sem ásamt sjö atvinnugreinafélögum kynnti nýlega Loftslagsvegvísi atvinnulífsins. Vegvísinum er ætlað að styðja við markmið íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Atvinnugreinar landsins, þar með taldar sjávarútvegur og bændasamtökin, tóku höndum saman og unnu loftslagsvegvísinn í þeim tilgangi að veita yfirsýn yfir núverandi stöðu og setja
loftslagsaðgerðir í stærra samhengi. Markmiðið er að auðvelda atvinnulífi og stjórnvöldum að finna í sameiningu aðgerðir, hvata, ívilnanir og fleira sem styðja við loftslagsaðgerðir íslensks atvinnulífs. Við heyrðum í Eggerti og báðum hann að segja okkur frá Loftslagsvegvísinum og þá einkum þeim hluta er snýr að sjávarútvegi.
Sjávarútvegurinn hefur náð einstökum árangri
,,Í ljósi mikillar áherslu og vilja til að efla grænar lausnir og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda þá blasti við að atvinnulífið og stjórnvöld yrðu að taka höndum saman og Grænvangur var einmitt stofnaður í því skyni,“ sagði Eggert.
,,Út frá sjónarhóli sjávarútvegsins er þetta sérstaklega áhugavert. Sjávarútvegurinn hefur dregið úr losun fiskiskipa gróðurhúsalofttegunda um 36% frá árinu 2005 sem er einstakt.Þetta er jákvæð afleiðing af tveimur þáttum. Annars hefur fiskveiðistjórnunarkerfið, sem var tekið upp um svipað leyti, gert sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að stýra veiðum á hagkvæman hátt með fækkun skipa og lækkun kostnaðar, m.a. með minni olíunotkun. Samhliða voru fiskistofnar byggðir upp sem gerir veiðina auðveldari. Með þessu verður olíunotkun á hvert veitt kíló mun lægri. Hins vegar hafa nýsköpun og framfarir í hönnun skipa og veiðarfæra skipt miklu máli. Þar má nefna lögun skipsskrokka þannig að viðnám þeirra í sjónum er minna, betri skrúfubúnað auk betri nýtni vélanna sjálfra. Þróun veiðarfæra hefur minnkað viðnám og gert þau léttari. Það sem er sérstaklega skemmtilegt er að allt þetta er gert á forsendum sjávarútvegsins sjálfs og er drifið áfram af hagrænum hvötum. Þetta eru góðu fréttirnar sem er afskaplega gaman að segja frá.“
Orkuskipti og fjárfestingarhvatar
Það liggur fyrir að orkuskipti í sjávarútvegi verða flókin. Það er engin augljós leið í augnablikinu en menn eru að huga að lausnum segir Eggert ,,Hvort það verður vetni, lífdísill, ammoníak, metanól eða hreinlega rafmagn vitum við ekki. Það á allt eftir að skýrast og þróast, en væntanlega verður um blöndu af mismunandi lausnum að ræða.“ Í vegvísinum er fjallað um fjárfestingarhvata sem hvetja fyrirtæki til fjárfestinga í orkuskiptum. Um þá segir Eggert: ,,Margar af þeim fjárfestingum, sem þarf að ráðast í, geta verið dýrar og auk þess áhættusamar þannig að út frá arðsemissjónarmiðum fyrirtækja verða þær ekki réttlætanlegar. Hér þarf því að horfa til hvata og samstarfs milli sjávarútvegs og stjórnvalda. Sjávarútvegurinn vill að sjálfsögðu leggja sitt af mörkum til að hægt verði að uppfylla þau markmið sem stjórnvöld hafa sett landinu. Eitt af því sem bent er á í vegvísinum er að gjöld, eins og kolefnisgjald sem lagt er á sjávarútveginn, verði nýtt til stuðnings við orkuskiptin og þróun grænna lausna. Það getur verið ljómandi fjárfesting fyrir samfélagið. Oft getur þetta verið eins og hænan og eggið. Það þarf að koma lausnum í víðtæka notkun til þess að gera þær viðráðanlegar, en kostnaður og áhætta í byrjun geta verið óyfirstíganleg. Það getur verið erfitt að réttlæta fjárfestingarnar til skamms tíma en til langs tíma fela þær í sér mikinn ábata fyrir samfélagið.“
Lög, reglugerðir og skattlagning mega ekki þvælast fyrir
Stjórnvöld setja lög og reglur, m.a. um stærð skipa, veiðisvæði og fleira auk þess að leggja á skatta. Í vegvísinum er bent á að lög og regluverk stjórnvalda megi ekki hindra orkusparnað og framþróun. Í núgildandi lögum er hins vegar að finna ákvæði sem koma í veg fyrir að sparneytnustu leiðir séu farnar í hönnun skipa. Hvernig sér Eggert fyrir sér að leysa úr þeim málum? ,,Við vitum að stjórnvöldum er alvara í því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það er afar mikilvægt að það fari fram samtal sjávarúvegsins og stjórnvalda um þessi mál. Starfsfólk í sjávarútvegi og tengdum greinum hefur mikla þekkingu á greininni sjálfri og tækninni, sem nýta þarf við setningu laga og reglugerða. Það er því algerlega augljóst í mínum huga að samstarf og samtal stjórnvalda og sjávarútvegsins er lykilatriði í því að losa um og fella niður lög og reglugerðir sem hindra vegferð okkar í átt að minni kolefnisútblæstri.“
En það eru ekki bara að lög og reglugerðir þvælast fyrir. Skattar hafa nefnilega áhrif líka. Það var þannig að þegar Vinnslustöðin hf. lét byggja Breka VE þá var aðalforsenda nýsmíðinnar olíusparnaður upp á 150 milljónir króna á ári vegna stærri, hæggengari og hagkvæmari skrúfu. Af þessum 150 milljóna sparnaði fer 33% í hærra veiðigjald á greinina, eða 50 milljónir króna. Skattar hafa einfaldlega áhrif á hegðun fyrirtækjanna. Hverju svarar Eggert þessu?
,,Þetta eru hlutir sem þarf að taka á. Vegvísirinn er byrjun á löngu ferðalagi og til að hefja umræðu. Um slík sértæk dæmi var ekki fjallað í vinnunni. En það má segja stjórnvöldum til hróss að þau eru einlæg í ásetningi sínum um græna framtíð. Þau hafa lýst sig reiðubúin til að ryðja úr vegi sköttum, lögum og reglugerðum sem leiða til neikvæðra hvata og hindrunum af þeim toga sem þú ert að lýsa þarna. Hér reynir á samstarf og samtal eins og ég hef áður nefnt. Það mega ekki vera til ,,latar“ í kerfinu sem letja fólk og fyrirtæki til nauðsynlegra framfara í baráttunni við hlýnun jarðar og skynsamlega umhverfisvernd.“
Óvissa um stjórn fiskveiða
En er óvissa og sífelld umræða um stjórn fiskveiða ekki einn af þessum lötum í kerfinu? Hún skapar óvissu og letur fyrirtæki í sjávarútvegi til fjárfestinga, þar á meðal þeirra sem leiða til minnkunnar á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hvernig sér Eggert þetta fyrir sér: ,,Aðalatriðið er að rekstrarumhverfið sé þannig úr garði gert að eðlilegir hvatar stýri þróuninni í rétta átt. Rekstrarleg hagkvæmni og umhverfisvitund geta og eiga að fara saman. Samstarf sjávarútvegsins og stjórnvalda er því lykilinn að árangri hér sem víðar,“ sagði Eggert að lokum.
Greinin birtist í prentútgáfu Bændablaðsins. fimmtudaginn 8.júlí 2021 og á vefnum 13.júlí 2021.
Höfundur er Sigurgeir B Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum.