Það má segja að árið 2024 hafi verið sérstaklega ánægjulegt fyrir Grænvang en á árinu fagnaði vettvangurinn fimm ára afmæli. Það var margt í gangi og árið var sérlega viðburðaríkt í alla staði. Hér innanlands bar hæst umræða um aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og sterk innkoma atvinnulífsins í umræðu um loftslagsmál. Á alþjóðavettvangi var Green by Iceland áberandi í hinum ýmsu viðburðum, sérstaklega á COP29 og svo í opinberri heimsókn forseta Íslands til Danmerkur. Það er því ekki úr vegi að rifja upp það sem stóð upp úr á árinu.
Árið byrjaði með áherslu á alþjóðlegt samstarf þegar Guðlaugur Þór Guðlaugsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna hleyptu af stokkunum nýju samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á sviði orku og loftslagsmála. Samkomulagið fól í sér áherslu á jarðvarma, föngun, förgun og nýtingu kolefnis og framleiðslu og nýtingu vetnis. Það má segja að alþjóðlegt samstarf hafi verið gegnum gangandi þema ársins 2024.
Uppfærð aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum (co2.is) var kynnt í byrjun sumars. Við uppfærsluna var meðal annars horft til loftslagsvegvísa atvinnulífsins sem voru kynntir 2023 en lögð var áhersla á samtal við mismunandi geira atvinnulífsins. Í kjölfar útgáfunnar fór Grænvangur að skoða hvernig vettvangurinn gæti komið að innleiðingu áætlunarinnar og stutt við samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í því. Sú vinna skilaði sér í því að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs skrifuðu undir samstarfssamning vettvangsins við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Markmið verkefnisins verður að móta og þróa samstarf milli stjórnvalda og atvinnulífs um innleiðingu loftslagsaðgerða.
Í október fór forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, í sína fyrstu opinberu heimsókn sem var til Danmerkur. Grænvangur tók þátt í skipulagningu öflugrar viðskiptasendinefndar sem var leidd af Íslandsstofu í samstarfi við Dansk-íslenska viðskiptaráðið og Samtök iðnaðarins. Hluti af dagskrá heimsóknarinnar var dansk-íslenskt viðskiptaþing sem var undirbúið í samstarfi við Dansk Industri. Friðrik X, konungur Danmerkur, og Halla Tómasdóttir voru með ávörp og svo fóru fram pallborðsumræður. Um 150 manns tóku þátt í viðskiptaþinginu þar sem áhersla var lögð á grænar lausnir enda báðar þjóðir í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir Grænvang að á dansk-íslenska viðskiptaþinginu tilkynnti Halla að hún hefði tekið að sér að verða verndari Grænvangs. „Ég hef áður sagt að farsælast sé að kalla ólíka saman, spyrja spurninga og hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Það er keppikefli allra þjóða að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður. Það er stórt verkefni sem verður ekki leyst nema að við höfum hugrekki til að fara nýjar leiðir, tala saman og vinna saman þvert á greinar, þjóðir og kynslóðir. Það er mér sérstakt ánægjuefni að verða verndari Grænvangs, sem hefur það hlutverk að leiða saman stjórnvöld og atvinnulíf í að greina og skilja vandann og sóknarfærin og virkja kraftinn í samstarfinu,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, við þetta tækifæri.
Við sama tækifæri undirritaði Grænvangur viljayfirlýsingu við dönsku systursamtök sín, State of Green, um aukið samstarf. Yfirlýsingin tekur sérstaklega til aukins samstarfs á þremur sviðum, þ.e. endurnýjanlegri orku, loftslagsaðgerðum og grænni umbreytingu. Markmiðið er að byggja á einstökum styrkleika beggja landa og efla samstarfið í kynningu á íslenskum og dönskum grænum lausnum á alþjóðavettvangi, með þekkingarmiðlun milli landanna og með að vinna saman að auknu samstarfi Norðurlandanna.
Í nóvember fór tuttugasti og níundi aðildarríkjafundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP29) fram í Bakú, Aserbaíjan. Það voru átta fyrirtæki sem héldu framlagi Íslands á lofti í viðskiptasendinefnd Íslands sem leidd var af Grænvangi undir merkjum Green by Iceland í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Fyrirtækin sem um ræðir eru Carbfix, Climeworks, Efla, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar, Orkuveitan, Verkís og Bjarni Herrera. Þátttakan í ár var öflug og komu fulltrúar viðskiptasendinefndar fram á 14 viðburðum, ýmist á málstofum eða á hringborðum. Þrír viðburðir voru haldnir á vegum Grænvangs, þar af einn í skála Danmerkur og einn í norræna skálanum. Skilaboð sendinefndarinnar á COP29 var að Ísland sé fyrirmynd fyrir árangursríkri uppbyggingu endurnýjanlegs orkukerfis og grænna lausna. Markmið hennar var að efla alþjóðlegt samstarf og styðja þannig aðrar þjóðir í að ná sínum loftslagsmarkmiðum.
Eins og áður hefur komið fram var árið sérstaklega viðburðaríkt og hér hefur aðeins verið tæpt á stærstu viðburðum ársins. Árið var líka nýtt í að efla innra starf Grænvangs. Má þar sérstaklega nefna baklandsfundi sem voru haldnir á árinu og það var gleðilegt hversu vel þeir voru sóttir. Þá er líka ánægjulegt að tvö fyrirtæki bættust inn í bakland Grænvangs en bæði Jarðboranir og International Carbon Registry (ICR) gengu frá inngöngu á árinu 2024. Undir merkjum Green by Iceland var unnið öflugt starf á síðasta ári og meðal annars var tekið á móti fjölda erlendra sendinefnda á árinu en alls kom fjöldi erlendra gesta til landsins í gegnum sendinefndir. Að sama skapi stóð Green by Iceland að 18 erlendum viðburðum og markaðsaðgerðum með íslenskum fyrirtækjum.
Við þökkum kærlega fyrir árið sem er liðið og hlökkum til aukins samstarfs á nýju ári.
Grænvangsteymið