Samhent átak lykillinn að árangri
Samhent átak samfélagsins í heild er lykillinn að árangri í loftlagsmálum að mati Birtu Kristínar Helgadóttur, forstöðumanns Grænvangs, samstarfsvettvangi atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Kom þetta fram í máli hennar á ársfundi Grænvangs, sem haldinn var á dögunum.
„Ísland er í einstakri stöðu þegar kemur að loftslagsmálum. Ríkisstjórnin hefur sett markmið um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og hefur alla burði til að verða fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land í heimi með því að klára orkuskipti innanlands. Orkuskipti eru veigamikill þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og halda stöðu Íslands sem leiðandi land í orkuskiptum á alþjóðavísu,” sagði Birta.
Ríkisstjórn Íslands hefur sett sjálfstætt markmið um 55% samdrátt á losun sem er á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þar með óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Birta sagði að með orkuskiptum styrkjum við sögu okkar sem þjóð í fremstu röð á þessu sviði og mótum okkar grænu framtíð.
„Stærstu tækifærin liggja í orkuskiptum. Orkuskipti eru forsenda þess að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra þjóða og þar með markmiðum um kolefnishlutleysi verði náð."
„Það er þó ýmislegt annað sem einnig þarf að huga að. Á Íslandi þarf að skapa gott umhverfi fyrir loftslagsvæna nýsköpun og móta í sameiningu loftslagsvænna hagkerfi sem virkar fyrir alla,” sagði Birta og bætti því við að til að orkuskiptin geti orðið urfi að forgangsraða verkefnum og áherslum með sjálfbærni og framtíð komandi kynslóða að leiðarljósi.
Hún talaði einnig um það sem framundan væri hjá Grænvangi. “Undirbúningur fyrir Loftslagsmót, sem haldið verður í þriðja sinn í maí næstkomandi í góðu samstarfi við Festu, Rannís og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Eitt af stærstu verkefnum Grænvangs í fyrra var Loftlagsvísirinn en hann var unninn af frumkvæði atvinnulífsins. Undirbúningur næstu útgáfu Loftslagsvegvísis er hafinn og til stendur að gefa hann út í uppfærðri útgáfu árið 2023. Atvinnulífið hefur sýnt metnað til að leggja sitt af mörkum til að ná sameiginlegum loftslagsmarkmiðum og mun halda því áfram.”