Starfshópur vindorku kallar eftir sjónarmiðum fyrir 30. september
Grænvangur vill minna aðilarfélaga sína á að nú stendur yfir vinna starfshóps vindorku sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í sumar en hópinn skipa þau Hilmar Gunnlaugsskon, Björt Ólafsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, þ.á m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum skv. skipunarbréfi.
Starfshópurinn hefur þegar hafið störf, en hann hefur það verkefni að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, þ.á m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum. Tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum og að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru.
Starfshópurinn er einhuga í að vanda sig vel og leitast við að tryggja að allir sem það vilja fái tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hvatt er því til þess að sem flestir setji fram skoðanir sínar um nýtingu vindorku og tengd atriði og taki þannig þátt í að móta þá niðurstöðu sem vonandi liggur fyrir í byrjun næsta árs.
Við bendum aðilarfélögum á að allar nánar upplýsingar frá starfshópi vindorku þar sem óskað er eftir sjónarmiðum megi nálgast hér. Einnig má senda tölvupóst á vindorka@urn.is