Tvær vikur í COP28
Í gær, 15. nóvember 2023, bauð Grænvangur, í samstarfi við Umhverfis, Orku og Loftslagsráðuneytið, íslenskum þátttakendunum sem eru að fara á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna upp á almennan upplýsinga- og tengslafund í aðdraganda COP28 sem hefst eftir tvær vikur.
Grænvangur heldur utan um þátttöku viðskiptasendinefndar atvinnulífsins en íslenskir þátttakendur á þinginu eru auk samninganefndar stjórnvalda,frjáls félagasamtök, háskólasamfélagið, Loftslagsráð og fleiri aðilar. Á fundinum kynnti Helga Barðadóttir formaður samninganefndar Íslands stóru málin sem yrðu til umfjöllunar á þinginu. Fyrir liggur að herða þarf verulega á aðgerðum svo markmið Parísarsamningsins náist. Á þinginu verður fyrsta hnattræna stöðutakan birt, sem leggur mat á árangur ríkja og mun varpa skýrara ljósi á stöðuna. Auk þess verður viðræðum um nýja loftslagshamfarasjóðinn, sem fjallar um töp og tjón haldið áfram. Kynntir verða nýir vinnustraumar um aðgerðir til samdráttar, með áherslu á orkuskipti í fyrsta fasa og haldið áfram með aðlögun 6. greinar um markaði, fjármögnun aðgerða eftir 2025 auk fleiri liða.
Búist er við hátt í 70 þúsundum þátttakendum á þingið í ár, sem haldið verður í Dubai en það eru Sameinuðu Arabísku furstadæmin sem fara með formennskuna. Hana sækja aðildarríki Loftslagsamningsins og samninganefndir en þátttaka annarra aðila sem styðja við loftslagsvegferðina hefur farið vaxandi undanfarin ár. Má þar nefna m.a. alþjóðastofnanir og ýmis samtök, umhverfissinna, ungliðahreyfingar, sérfræðinga og menntastofnanir, frumkvöðla, fjárfesta, atvinnugreinar og fyrirtæki enda er hlýnun jarðar og áhrif loftslagsbreytinga eitt stærsta viðfangsefni okkar samtíma.
Hér má lesa nánar um þátttöku atvinnulífsins á þinginu.
Heimasíðu þingsins má finna hér.