Loftslagsmót var haldið í annað skiptið þann 21.apríl síðastliðinn, en um er að ræða stefnumót fyrirtækja og stofnana um nýsköpun og lausnir á sviði loftslagsmála.
Á mótinu komu saman 90 aðilar frá ólíkum fyrirtækjum og stofnunum sem tóku þátt í um 100 fundum og var ánægja meðal þátttakenda mikil.
"Það var góð stemming á Loftlagsmóti Grænvangs á síðasta vetrardag. Ég tók þátt í fjölda stuttra funda með áhugaverðu fólki og myndaði mikilvæg tengsl. Það var einfalt að skrá sig og flytjast á milli funda sem skiptir miklu máli þegar maður vill nýta tímann vel. Vel skipulagt, skilvirkt og skemmtilegt. Ætla sannarlega að taka þátt að ári." Vilborg Einarsdóttir, Bravo.Earth.
"Það var ánægjulegt og árangursríkt að taka þátt í Loftlagsmótinu. Við kynntumst lykilfólki sem vinnur á sviði umhverfisverndar og nýsköpunar hérna á Íslandi. Þátttakan gaf okkur góða innsýn í þeirra viðfangsefni og við hjá Meniga gátum miðlað því sem við erum að gera. Okkur bíður það skemmtilega verkefni að vinna úr nokkrum góðum tækifærum til samstarfs sem komu í ljós á mótinu." Jón Heiðar Ragnheiðarson, Meniga.
"Loftslagsmótið er góð leið til að tengjast fyrirtækjum og fólki sem er á vegferð í átt að sjálfbærni og loftslagsvænni framtíð. Sem ráðgjafi hitti ég einkum fólk sem vantar stuðning á sinni vegferð en einnig aðila með flottar lausnir. Ég og mitt teymi hjá EY áttum marga skemmtilega fundi. Við nýttum tímann vel og vorum með fulla dagskrá. Þetta fyrirkomulag er góð leið til að víkka tengslanetið og ég sé fram á samstarf í framhaldinu eins og varð raunin í fyrra vor. Þá mátti heilsast með olnbogunum fyrir fund en rafræna fyrirkomulagið var ekki síðra." Snjólaug Ólafsdóttir, EY.
Að loknu Loftslagsmóti mætti Birta Kristín Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Grænvangi í Samfélagið á Rás 1 til að ræða loftslagsmótið nánar og má nálgast viðtalið í heild sinni hér fyrir áhugasama.
Það er nokkuð ljóst að mikill áhugi er á því að nýta vettvang sem þennan til að styðja við fyrirtæki, stofnanir og aðra í leit að samstarfi á sviði loftslagsmála og grænna lausna og er stefnt að því að halda Loftslagsmót árlega.
Grænvangur, RANNÍS, Festa og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir og hlakka til að hittast aftur á Loftslagsmóti eigi síðar en að ári liðnu.