Vetni – til hvers?
Ísland gæti orðið meðal fyrstu landa heims til að verða alfarið óháð jarðefnaeldsneyti. Evrópusambandið, Þýskaland, Frakkland og fleiri lönd hafa gert metnaðarfullar áætlanir um nýtingu vetnis í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Þær fjalla einkum um hraða innleiðingu svokallaðs græns vetnis, sem unnið er með því að rafgreina vatn með rafmagni frá endurnýjanlegum orkulindum. Græna vetnið er unnið á umhverfisvænan hátt og mun leysa af hólmi svokallað grátt vetni, sem unnið er úr gasi með skaðlegri losun gróðurhúsalofttegunda og nýtt í fjölbreyttum iðnaðarferlum.
Til að ná fram nauðsynlegum orkuskiptum á fjölmörgum sviðum þjóðfélagsins þarf vetni, einkum þar sem ekki verður hagkvæmt að koma við rafhlöðum. Þetta á meðal annars við um flutningabíla, fraktskip, fiskiskip, vinnuvélar og jafnvel flugvélar. Ennfremur er unnt nýta vetni til húshitunar þar sem jarðvarmi eða aðrir grænir orkugjafar eru ekki til staðar. Loks hefur vetni þann mikla kost að hægt er að geyma það og jafna út sveiflur í raforkuvinnslu og -notkun. Á þetta mun sérstaklega reyna eftir því sem nýting sveifluháðra orkugjafa, s.s. sólar og vinds, fer vaxandi.
En hvernig snýr þessi þróun að Íslandi og hvernig getum við best nýtt þau tækifæri sem í henni felast?
Til heimabrúks
Ísland stendur framarlega í orkuskiptum. 100% af raforku og 100% af orku til húshitunar koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Hlutfall rafbíla vex hratt. Næstu verkefni lúta að því að nýta vistvæna orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis á flutningabíla, skip, vinnuvélar og jafnvel flugvélar.
Ekki verður unnt að sinna öllum þeim þörfum með rafhlöðum. Þar þarf því að nýta vetni eða fljótandi eldsneyti unnið úr vetni. Í þessu felast mikil tækifæri sem Íslendingar verða að nýta, sýna gott fordæmi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið.
Til útflutnings
Framleiðsla vetnis þolir vel sveiflur í orkuframboði. Því er hægt að nota til hennar ótrygga orku, svo sem umframorku í íslenska orkukerfinu og vindorku. Verði framleitt hér meira vetni en þarf til heimabrúks, opnast möguleikar til útflutnings. Vissulega á eftir að leysa ýmis tæknileg úrlausnarefni varðandi flutninga og fleira, en einnig á þeim sviðum er þróunin hröð og nýjar lausnir í sjónmáli á næstu árum. Það er síðan stjórnvalda, orkufyrirtækja og markaðarins að ákveða hversu mikið verður framleitt af vetni til útflutnings. Útflutningur vetnis væri einnig frekara framlag Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öðrum löndum með tilheyrandi ávinningi fyrir okkur öll.
Til nýsköpunar
Vetnishagkerfi framtíðarinnar mun krefjast nýrra lausna við vinnslu, flutning og notkun vetnis. Hvergi liggja þessar lausnir heildstætt fyrir á stórum skala. Ísland hefur forskot vegna aðgengis að grænni orku. Íslendingar geta því orðið forystuþjóð í hagnýtingu vetnis í orkuskiptum og sýnt þannig öflugt fordæmi í loftslagsmálum.
Á síðustu öld lagði nýting jarðhita við hitaveitur og raforkuvinnslu grunninn að umfangsmikilli þekkingu íslenskra sérfræðinga og nýsköpun. Þessi þekking hefur síðan orðið að sjálfstæðri útflutningsvöru og -þjónustu. Hún hefur liðsinnt öðrum þjóðum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og skilað gjaldeyri í þjóðarbúið. Uppbygging vetnishagkerfis gæti haft sams konar ávinning í för með sér. Þannig gæti einn verðmætasti ávinningurinn verið fólginn í nýsköpun hér heima og útflutningi á þekkingu, vörum og þjónustu til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og skapa verðmæti.
Alþjóðleg áskorun – innlend þekking
Loftslagsváin er alþjóðleg áskorun og samdráttur í losun skilar árangri, óháð því í hvaða landi hann verður. Þekking Íslendinga við nýtingu fallvatna og jarðhita hefur skilað miklum árangri erlendis og um leið tekjum í þjóðarbúið. Uppbygging vetnishagkerfis gæti verið næsta tækifærið í röðinni.
Til þess að svo geti orðið þarf markvisst og metnaðarfullt samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og annarra sem hlut eiga að máli.
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 13. janúar 2021