Grænvangur og State of Green, systursamtök hans í Danmörku, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um aukið samstarf þeirra á milli. Undirritunin fór fram á sameiginlegu dansk-íslensku viðskiptaþingi sem fram fór í Kaupmannahöfn í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands til Danmerkur.
Viljayfirlýsingin tekur sérstaklega til aukins samstarfs í þremur sviðum, þ.e. endurnýjanlegri orku, loftslagsaðgerðum og grænni umbreytingu. Markmiðið er að byggja á einstökum styrkleika beggja landa og efla samstarfið í kynningu á íslenskum og dönskum grænum lausnum á alþjóðavettvangi, með þekkingarmiðlun milli landanna og með að vinna saman að auknu samstarfi Norðurlandanna.
Finn Mortensen, framkvæmdastjóri State of Green, og Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, undirrituðu viljayfirlýsinguna en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands og Lars Aagaard Møller, loftslags-, orku- og innviðaráðherra Danmerkur voru viðstödd undirritunina auk Sigurðar Hannessonar, formanns stjórnar Grænvangs og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Thomas Bustrup, stjórnarmanns hjá State of Green og aðstoðarframkvæmdastjóra Dansk Industri.
Þá voru Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Friðrik X, Danakonungur, einnig viðstödd undirritunina. Við sama tilefni tilkynnti forseti Íslands að hún yrði verndari Grænvangs, en þess má geta Friðrik X, Danakonungur hefur verið verndari State of Green frá stofnun þess.
Á dansk-íslenska viðskiptaþinginu var fjallað um viðskiptasamstarf þjóðanna sem og samstarfstækifæri á sviði orkumála og grænna lausna í átt að kolefnishlutleysi og sjálfbærri framtíð. Þar geta Ísland og Danmörk lagt sitt af mörkum með aukinni þekkingarmiðlun á milli landanna og samstarfi á alþjóðlegum vettvangi enda standa báðar þjóðirnar framarlega hvað varðar nýtingu endurnýjanlegrar orku og nýsköpunar á sviði loftslagslausna.
„Sem talsmenn loftslagsaðgerða í gegnum samstarf milli opinberra og einkaaðila erum við spennt að styrkja samstarfið við systursamtök okkar á Íslandi, Grænvang. Saman stefnum við að því að efla viðskiptasamstarf milli Danmerkur og Íslands og sækja saman alþjóðleg tækifæri. Með sameiginlega reynslu okkar af rannsóknum og þróun, tæknilausnum, endurnýjanlegri orku og tengdum orkulausnum sjáum við mikla möguleika til að hvetja til grænnar umbreytingar og stuðla að að réttlátum, jöfnum og kolefnishlutlausum hagkerfum," segir Finn Mortensen, framkvæmdastjóri State for Green.
„Þessi viljayfirlýsing hefur mikla þýðingu fyrir okkur í Grænvangi. Með því að deila sérfræðiþekkingu og vinna að sameiginlegum verkefnum geta Grænvangur og State of Green styrkt forystu þjóðanna í grænni umbreytingu á alþjóðavettvangi. Framlag, bæði Danmerkur og Íslands til loftslagsmála getur verið umtalsvert og State of Green er öflugur samstarfsaðili sem við hlökkum til að vinna með í því verkefni,“ segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs.
Um State of Green
State of Green er sjálfseignarstofnun sem er fjármögnuð af dönskum stjórnvöldum og þriggja leiðandi viðskiptasamtaka Danmerkur (Dansk Industri, Green Power Denmark og Landbrug Fødevare). Hún var stofnuð árið 2008 og vinnur að því að miðla þekkingu Dana á grænum lausnum til samstarfsaðila um alla heim og stuðla að alþjóðlegu samstarfi og útflutningi grænna lausna.