Níu fyrirtæki skipa viðskiptasendinefnd Íslands á COP29 sem fram fer í Baku í Aserbaíjan í næsta mánuði. Hlutverk viðskiptasendinefndar er að halda á lofti framlagi Íslands í loftslagsmálum, kynna Ísland og þær lausnir sem það hefur upp á að bjóða ásamt því að sækja þekkingu og reynslu sem nýtist í loftslagsvegferðinni hér heima. Viðskiptasendinefnd er leidd af Grænvangi í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið en þess má geta að allur kostnaður við þátttökuna greiðist af fyrirtækjunum sjálfum.
Fyrirtækin sem um ræðir eru Carbfix, Carbon Recycling International (CRI), Climeworks, Efla, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar, Orkuveitan, Verkís og Bjarni Herrera.
Skilaboð sendinefndarinnar inn á COP29 eru þau að Ísland sé fyrirmynd fyrir árangursríkri uppbyggingu endurnýjanlegs orkukerfis og grænna lausna. Markmið hennar eru að efla alþjóðlegt samstarf og styðja þannig aðrar þjóðir í að ná sínum loftslagsmarkmiðum.
Sem liður í undirbúningi viðskiptasendinefndar vinnur Grænvangur í nánu samstarfi við systursamtök sín á Norðurlöndum. Þetta samstarf Norðurlandanna hefur verið að aukast á undanförnum árum og sem dæmi má nefna að í ár taka fulltrúar íslenskra fyrirtækja meðal annars þátt á málstofum í norræna skálanum og danska skálanum á COP29.
COP er stærsti árlegi loftslagsviðburður heims. Undanfarin ár hefur Ísland sent viðskiptasendinefnd á COP, samhliða samninganefnd Íslands. Viðburðurinn hefur þróast í þá átt að vera ekki eingöngu samningavettvangur aðildarríkjanna, heldur innleiðingarvettvangur þar sem áherslan er á lausnamiðað samtal, þekkingarmiðlun og samstarf um leiðir að settu marki. Íslenskum fyrirtækjum gefst því tækifæri til að kynna sig, sækja sér þekkingu og finna samstarfsaðila.
„Við erum með mjög öfluga og fjölbreytta viðskiptasendinefnd í ár. Þetta eru reynslumikil fyrirtæki í endurnýjanlegri orkuvinnslu, verkfræðifyrirtæki með umfangsmikla þekkingu í þróun orku og grænna lausna en líka framsækin nýsköpunarfyrirtæki í föngun, förgun og nýtingu kolefnis þannig við náum að segja margar góðar sögur á COP29. Ísland er fyrirmynd sem hefur náð lengra en flestar þjóðir á sviði grænnar umbreytingar og orkuskipta og við viljum veita öðrum þjóðum innblástur í sinni vegferð.“ segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs.