Opnað hefur verið fyrir umsóknir um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands á COP29
Tuttugasti og níundi aðildaríkjafundur og ráðstefna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember í ár. Fulltrúar úr íslensku atvinnulífi hafa undanfarin ár sótt ráðstefnuna með það að markmiði að sækja sér þekkingu, ræða loftslagslausnir, efla tengsl og koma á auknu alþjóðlegu samstarfi í grænu umskiptunum. Grænvangur leiðir þátttöku viðskiptasendinefndar Íslands á COP29 í góðu samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um þátttöku. Umsóknarfrestur er til 31. maí nk.
Á fyrirtækið mitt erindi á COP29?
Ráðstefnan er að þróast í þá átt að vera ekki eingöngu samningavettvangur aðildaríkjanna heldur innleiðingavettvang þar sem áherslan er á lausnamiðað samtal, þekkingarmiðlun og samstarf um leiðir að settu marki. Hlutur atvinnulífsins á þinginu hefur því stóraukist enda er þetta stærsta þing um loftslagaðgerðir í heiminum ár hvert. Þátttaka íslensks atvinnulífs á þinginu er mikilvægur liður sem styður við loftslagsaðgerðir og markmið Íslands en jafnframt er þetta lykilvettvangur til að vekja athygli á framlagi og lausnum Íslands gagnvart öðrum þjóðum og samstarfsaðilum um heim allan. Hana sækja því, auk samninganefnda aðildarríkja, meðal annars fulltrúar stjórnvalda, alþjóðastofnana, vísindasamfélagsins, fjárfesta, fyrirtækja, borga og hagsmunasamtaka.
Hvaða skilyrði þarf fyrirtæki að uppfylla til að taka þátt í viðskiptasendinefnd?
Fyrirtæki þarf að geta sýnt fram á að eiga erindi á COP29 og vera með skýran tilgang fyrir þátttöku. Grænvangur í samráði við fulltrúa umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins munu meta umsóknir og ganga frá úthlutun. Viðmið við úthlutun verða að fyrirtæki:
- Séu að sækja sér þekkingar eða tengsla á þinginu sem nýst geta í loftslagsvegferðinni á Íslandi.
- Séu að kynna lausnir eða þjónustu sem styðja við grænu umskiptin.
- Séu að leita eftir viðskiptatengslum eða öðrum tengslum við erlenda hagaðila.
- Hafi náð viðeigandi áföngum í þróun og fjármögnum.
- Hafi gott orðspor og séu verðugir fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi.
- Séu starfandi á Íslandi (hafi íslenska kennitölu).
Skráning á COP29 fer fram í gegnum aðgang íslenskra stjórnvalda að COP og því er gert ráð fyrir að fulltrúar fyrirtækja í viðskiptasendinefnd hafi íslenskt vegabréf eða starfi hér á landi.
Til hvers er ætlast af fyrirtækinu?
Þátttaka fyrirtækja í viðskiptasendinefnd felur í sér skuldbindingu til virkar þátttöku í sameiginlegum undirbúningi viðskiptasendinefndar fyrir COP29. Undirbúningsferlið felur meðal annars í sér mótun skilaboða viðskiptasendinefndar ásamt því að tryggja undirbúning fyrirtækjanna, meðal annars með upplýsingagjöf, aðstoð við tengslamyndun á ráðstefnunni sjálfri, undirbúning þátttöku fulltrúa fyrirtækjanna á málstofum á ráðstefnunni auk umsýslu. Á meðan að á ráðstefnunni stendur sér Grænvangur um markaðssetningu, almannatengsl og utanumhald um þá viðburði sem eru á vegum sendinefndar ásamt öðrum stuðningi við viðskiptasendinefnd.
Hvað kostar þátttaka í viðskiptasendinefnd?
Fyrirtæki greiða staðfestingargjald per fulltrúa að upphæð 150.000 kr. eftir að afgreiðslu umsókna er lokið og úthlutun sæta í viðskiptasendinefnd liggur fyrir. Innifalið í staðfestingargjaldi er kostnaður við umsýslu, kynningarstarf hér heima og undirbúningur þátttöku viðskiptasendinefndar á COP29 (kynningarfundir, vinnustofur, upplýsingamiðlun o.s.frv.).
Fyrir brottför greiðir hvert fyrirtæki hlutdeild í þeim breytilega kostnaði sem fellur til vegna fundaraðstöðu, markaðssetningar, almannatengsla og annars kostnaðar vegna viðburða á vegum sendinefndar á meðan að á þinginu stendur. Kostnaðurinn fer eftir umfangi viðburða, kostnaði við aðstöðu á svæðinu og fjölda fyrirtækja. Það má áætla að kostnaðarhlutdeild hvers fyrirtækis hvers fyrirtækis verði á bilinu 350.000 til 700.000 kr.
Séu fyrirtæki í baklandi Grænvangs mun Grænvangur greiða hluta kostnaðar þeirra fyrirtækja.
Hvernig er sótt um?
Sótt er um þátttöku í viðskiptasendinefnd í rafrænni umsókn sem má nálgast hér. Í henni er óskað eftir upplýsingum um fyrirtækið, rökstuðningi fyrir þátttöku og markmiðum þess á COP29. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið má nálgast hér.
Hvar get ég fengið nánari upplýsingar?
Hér á heimasíðu Grænvangs má finna ítarlegri upplýsingar um COP29, umsóknarferlið og viðskiptasendinefnd. Það er líka velkomið að hitta okkur í Grænvangsteyminu og fá nánari kynningu á viðburðinum og viðskiptasendinefnd. Upplýsingar veitir Hans Orri Kristjánsson, verkefnastjóri innlends samstarfs hjá Grænvangi á netfanginu hans@green.is eða í síma 696-9321.